þriðjudagur, janúar 16, 2007

Funakoss milli kaldra vara

Fyrst ég er farin að birta hér gamla pistla þá skrifaði ég þennan fyrir Lesbók Morgunblaðsins einhvern tíma á árunum 1993-1995. Þá var ég með þjóðlífspistla þar með reglulegu millibili en fann engan nema þennan í tölvunni í gær.

Árið 1928 birtist í Lesbók Morgunblaðsins kvæðið Vikivaki eftir Guðmund Kamban. Fróðir menn þóttust strax kenna að skáldið hefði sótt sér innblástur í Sörla þátt Brodd-Helgasonar. Líkt og margir aðrir Íslendingasagnaþættir er hann ákaflega stuttur og frásögnin kannski ekki eins tæmandi og æskilegt væri. Þar segir af kvonbænum Sörla Brodd-Helgasonar til Þórdísar dóttur Guðmundar ríka á Möðruvöllum. Guðmundur var höfðingi og goðorðsmaður og hélt jafnan heima á Möðruvöllum mikið lið ungra manna af göfugum ættum. Sörla hittir Guðmundur á þingi eitt árið og hefur með sér heim, enda maðurinn hinn siðmannlegasti eins og segir í sögunni.

Brátt fór að bera á því að Þórdís og Sörli höfðu meira að ræða og spjölluðu oftar saman en eðlilegt gat talist millum heimilisfólks. Guðmundur segir ekkert við Sörla en sendir dóttur sína til Einars bróður síns sem bjó á Þverá í Eyjafirði. Sennilega hafa þau Sörli og Þórdís náð að kveðjast áður en hún fór í vist til frænda síns en þannig lýsir Guðmundur Kamban kveðjustund þeirra.

Að ofan helkaldar stjörnur stara
með strendu sjáaldri úr ís
á funakoss milli kaldra vara
svo kaldra að andi manns frýs.
Og máninn skín á oss skyldurækinn,
vill skilja milt okkur við.
Við stöndum tvö hér við tunglskinslækinn
og teljum áranna bið.

Sagan segir svo að Þórdís hafi dvalið ár hjá frænda sínum áður en Sörli vitjaði hennar. Hún gengur út til lérefta sinna og tekur eftir manni einum miklum sem ríður í garðinn. Þá verður henni að orði: „Nú er mikið um sólskin og sunnanvind og ríður Sörli í garð." Sörli leitar síðan fulltingis góðra manna til að snúa föður Þórdísar og leyfa þeim að eigast. Hann snýr sér fyrst til Einars föðurbróður hennar en hann bendir honum á Þórarinn tóka Nefjólfsson og segir hann bæði vitran mann og auk þess vin Guðmundar.

Þórarinn tóki fer til Guðmundar og spyr hvers vegna hann vilji ekki gefa Sörla dóttur sína, hann sé bæði ættstór og vel menntaður. Guðmundur segist að sér gangi það eitt til að sér líki ekki það orð sem áður hafi farið af kynnum þeirra. En á þjóðveldisöld virðist almennt hafa ríkt mikil andúð gegn því að ástir takist með hjónaefnum áður en þau giftast. Guðmundi þykir það því blettur á virðingu sinni að ástæða hafi þótt til að slúðra um Þórdísi og Sörla. Þórarinn ræðir þetta örlítið lengur við hann en segir svo eitthvað á þá leið að líklegasta skýringin á tregðu Guðmundar til að gefa Sörla dóttur sína sé að hann vilji ógjarnan að út af honum (þ.e. Guðmundi) sem nú sé valdamestur í landinu komi dóttursonur honum enn meiri. Þessir ofurlítið lúmsku gullhamrar urðu til þess að Guðmundur gafst upp og samþykkti ráðhaginn, enda þótti honum lofið gott. Sagan segir einnig að Þórarinn hafi þekkt skap Guðmundar og vitað hvað þyrfti til samþykkisins.
Lengri er Sörla þáttur ekki að öðru leyti en því að talið er upp eitthvað af afkomendum þeirra
Þórdísar og Sörla. Skáldin hafa hins vegar tekið sér hið fræga skáldaleyfi og bætt í eyðurnar. Guðmundur Kamban gerir söguna að dæmisögu um ást, tryggð og trúfesti. Þórdís bíður og efast aldrei eitt andartak um tryggð Sörla. Svo virðist þó að skáldið álíti tímann sem Þórdís bíður í festum langan. Sörlaþáttur þegir hins vegar um tímann sem leið þar til Sörli fékk jáyrði frá tengdaföður sínum en vitað er að ár var Þórdís hjá föðurbróður sínum. Kannski er Guðmundur hér að lýsa óþreyju ungra elskenda sem bíða þess að hittast á ný með því að gefa þá hugmynd að tíminn virðist Þórdísi ósköp lengi að líða. Hann leggur kvæðið henni í munn og þar segir: „Sörla beið ég og síglöð undi við síðustu orð hans og heit..." og síðar „Brenni jörð undir berum fótum og blikni sól í þeim eim: Aldrei skipti eg við annan hótum því eitt sinn kemur hann heim."

Guðmundur tengir Sörlaþátt og frásögnina þar öðrum og harmrænni ástarsögum í Íslendingasögum. Hann talar um vantraust Guðrúnar Ósvífursdóttur og vonsvik Kjartans Ólafssonar sem með vopnum enduðu sinn fund en Þórdís mælandinn í ljóðinu yrkir um vissu hjartans og vonglaða íslenska lund. Hann notar tækifærið og minnir fólk á að jákvætt hugarfar og bjartsýni auðveldar lífið og segir:

Vappar ósyndur ungi á bakka
með augun blikandi af þrá –
en sumir þora ei til þess að hlakka,
sem þeim er annast að fá.
Gegn svo mörgu, sem guð þeim sendir,
menn gera kvíðann að hlíf,
og kvíða oft því sem aldrei hendir,
og enda í kvíða sitt líf.

Guðmundur er hins vegar ekki eina skáldið sem heillast hefur af sögu þeirra Sörla og Þórdísar og hinum einföldu en fallegu orðum hennar þegar hún sér ástvin sinn ríða heim að bænum og verður þess vör að sólskinið og sunnanvindurinn fylgja honum. Jakob Jóhannesson Smári yrkir í kvæðinu Á Möðruvöllum um syngjandi sunnanvindinn sem svífur um fjallaskarð og gárar gullhár Þórdísar. Að lokum segir hann:

Hlæja nú teigar og tindur
túnið, lækur og barð:
„Sólskin og sunnanvindur –
Sörli ríður í garð."

Sörla Brodd-Helgasonar er einnig getið í Njálu og þar er hann sagður giftur Þórdísi dóttur Guðmundar ríka. Þau bjuggu á Valþjófsstöðum í Fljótsdal og líklegt er að Sörli hafi þegið goðorð í arf frá ömmu sinni Ásvöru Þórisdóttur, Graut-Atlasonar en Graut-Atli var meðal sex landnámsmanna sem göfugastir voru taldir í Múlaþingi. Ólíklegt er líka að Guðmundur ríki hefði samþykkt að gefa dóttur sína manni sem ekki var goðorðsmaður. Sörli var af ætt Hofverja frá Hofi í Vopnafirði en Bjarni bróðir hans fór með Hofverjagoðorð. Njála segir að Flosi Þórðarson hafi leitað til Sörla eins og annarra höfðingja á Austurlandi eftir liðveislu á Alþingi eftir að hann brenndi Bergþórshvol og ljóst var að Kári Sölmundarson hafði komist lífs af. Sörli neitar honum þó um atkvæði sitt á þeirri forsendu að hann þurfi fyrst að komast að hvern tengdafaðir hans hyggist styðja. Flosi hreytir þá í hann að hann muni búa við konuríki. Síðar leitar Flosi til Hólmsteins Spak-Bessasonar sem heitir honum liðveislu en þegar Flosi segir honum að allir höfðingjar Austurlands hafi tekið sér vel nema Sörli svarar Hólmsteinn því til að helst komi það til að Sörli sé engin ofstopamaður, enda varla við því að búast af manni sem tekur með sér sólskinið og sunnanvindinn þegar hann fer í heimsókn til elskunnar sinnar.

4 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Ja, mikið rækalli ertu góður penni. Takk fyrir þennan skemmtilega pistil, ég skil ekki hvernig á því stendur, en ég hef misst af honum í Lesbók um árið. Ég sem kunni Lesbók utanað meira og minna nokkur ár í röð. Það var áður en henni fór að fara aftur.

9:58 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Já þetta var nokkuð fróðlegt en þó komið nokkrar dagleiðir út fyrir mitt áhugasvið, og þó... kannski ekki. Hver veit?

Það væri gaman að fá kalt mat á bestu fréttastofu á öllu netinu, Fréttastofu Yfirbauks, frá atvinnublaðamanni.
Kveðja Ási
p.s. Kíki í heimsókn þegar ég kem í borgina næst.

10:36 e.h.  
Blogger Steingerdur hin storskorna said...

Takk kærlega fyrir kommentin og ég hlakka til að sjá þig Ási minn. Þú veist að þú ert alltaf velkomin í Neðstutröðina.

12:48 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Þetta er ógeðslega skemmtilegt. Vopnfirðingar hafa löngum fræknir verið. Sólskin og sunnanvindur og Sörli ríður í garð, þetta er eitthvað sem ég hef oft notað til að gefa til kynna að nú sé bjartara fram undan, hafði hins vegar ekki hugmynd um upprunann.

Magga.

4:14 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home