Hin dularfulla lágvaxna kona
Gurrí skrifar skemmtilegt blogg um reynslu sína af spákonum og auðvitað get ég ekki stillt mig um að segja ykkur nokkrar góðar. Ég heiti Steingerður og engum dettur í hug að foreldrar með fullu viti eða að minnsta kosti með snefil af ást og umhyggju fyrir unganum sínum skíri barnið sitt öðru eins nafni. Þess vegna er viss passi að spákonur sjá ævinlega fylgja mér lágvaxna konu í peysufötum sem ég er skírð eftir. Það vill svo til að nafnið mitt er algerlega út í loftið og komið til vegna þess að mamma er stórskrýtin og fannst það fallegt. Í okkar ætt er því engin önnur Steingerður og er Þórður frændi komin með ættartréð aftur að árið 452 fyrir krist. Í minni ætt er sömuleiðis leitun á lágvöxnum konum þannig að það er algjör ráðgáta hver þessi lágvaxna peysufatapía er. Kannski er þetta nafnadísin fyrst það er til tannálfur (tooth fairy) er bara rökrétt að álykta að einhver góðgjörn dís rölti um allt á eftir þeim sem eru svo óheppnir að hafa verið skírðir ónefnum.
Ein spákona sem ég fór til sá mann á jeppa sem myndi heilla mig upp úr skónum og það svo mjög að ég yfirgæfi eiginmanninn fyrir hann. Ég hangi nú með þeim sama enn og hann er búinn að kaupa handa mér jeppling. Kannski sá spádómur hafi þar með ræst.
Ein spáði mér fimm börnum. Þau eru tvö og ekkert bólar á einu enn. Að vísu á maður alltaf að líta þetta jákvæðum augum þannig að kannski taldi hún kettina og hundinn með en þá ættu börnin mín að vera átta og þrjú látin.
Ein spáði mér frægð og frama á leiksviðinu en önnur sá glæstan feril í stjórnmálum. Ég er hins vegar ekki viss um að mér endist ævin til að framkvæma þetta allt.
2 Comments:
HEHEHEHEHEHEHEH, BRILLJANT!
Já, frábært. Ég gæti sagt þér þónokkrar spákonusögur. Kannski í afmælinu hennar Gurríar eftir nokkra mánuði...!
Skrifa ummæli
<< Home