laugardagur, mars 12, 2005

Fjólubláir draumar

Ég veit nú af hverju Sigurður Þórarinsson sagði að Akrafjall og Skarðsheiðin væru eins og fjólubláir draumar. Að undanförnu hefur birtan verið þannig að Bláfjöllin, Grindaskörðin og Keilir hafa verið eins og fjólubláir draumar úti við sjóndeildarhring þegar við Freyja höfum gengið meðfram Kópavoginum. Í gærkvöldi voru fjólublá fjöllin í fjarska og sólin að setjast bak við Bessastaði í aðalhlutverki. Himininn var logagylltur og rauður og gul ljóskeila dansaði á voginum og elti mig hvert sem ég fór. Þetta var einstaklega gott fyrir egóið því engu var líkara en að risastóru kastljósi hefði verið beint að mér og ég væri aðalstjarnan og baðaði mig í sviðsljósinu. Já, ég veit Andri, að á þessu er til eðlisfræðileg skýring en leyfðu mér að halda í tálsýnina ögn lengur. Kvöldgöngur mínar og fósturbarnsins hafa verið yndislegar að undanförnu og vorið sífellt að gera meira vart við sig. Æðarfuglar og stokkendur eru í óðaönn að para sig og þinghrafnar senda hvor öðrum tóninn af ljósastaurunum. Jamm, víst er þetta indælt líf.