mánudagur, janúar 22, 2007

Stórt er nú höggvið

Og enn annar:

Einn hinna athyglisverðari Íslendingasagnaþátta er Þorsteins þáttur stangarhöggs. Þar er sagt frá Þórarni bónda í Sunnudal í Vopnafirði og syni hans Þorsteini.

Maður að nafni Þórður var húskarl Bjarna á Hofi, hann var ójafnaðarmaður og þóttist að því meiri að vera í þjónustu ríkismanns. Einhverju sinni mætast Þorsteinn og Þórður með sinn hvorn unghestinn í hestaati. Hestur Þórðar vék sér undan biti stóðhestsins sem Þorsteinn atti og reiddist Þórður því. Hann slær því mikið högg á nasir hests Þorsteins sem svarar í sömu mynt. Þá gafst hestur Þórðar upp og var ljóst að hann hafði tapað leiknum. Þórður reiðir þá hestastaf sinn til höggs og slær Þorstein sem hlaut af sár við augnabrúnina. Þorsteinn tók þessu rólega batt um sárið og bað menn að segja ekki föður sínum frá þessu atviki.

Tveir aðrir húskarlar Bjarna á Hofi þeir Þórhallur og Þorvaldur gerðu grín að þessu atviki, uppnefndu Þorstein og kölluðu hann stangarhögg. En eins og alltaf gerist varð einhver til að kjafta í karl föður Þorsteins og ekki leið á löngu þar til hann tók að núa atvikinu syni sínum um nasir. Spurði karl hann hvort honum væri ekki illt í höfuðbeinunum og hvort hann myndi ekki hafa verið lostinn í svima sem hundur á hestaþinginu.

Frýjað til mannvíga

Hvort sem þeir ræddu þetta lengur eða skemur feðgar varð afleiðingin sú að Þorstienn stóðst ekki frýunarorð karlsins, gekk að heiman með vopn sín og hitti Þórð við hesthús Bjarna á Hofi. Átti Þórður ekki afturkvæmt úr þeirri hrossavitjun. Þorsteinn kemur við á Hofi í heimleiðinni og biður konu nokkra er hann hittir utandyra að skila því til Bjarna að hann hafi stangað Þórð hestasvein hans og muni Þórður bíða þess að húsbóndi hans eigi leið framhjá hesthúsum sínum.

Bjarni fær fréttirnar með skilum og býr vígsmál á hendur Þorsteini og fær hann dæmdan til skóggangs. Ekki verður þess vart að Þorsteinn hafi kippt sér upp við að vera dæmdur skógarmaður því hann situr rólegur í búi föður síns sem fyrr. Taka menn þá sem óðast að brýna Bjarna og hvetja hann til að lauga virðingu sína. Þeir húskarlar Þórhallur og Þorvaldur voru manna ólatastir við þá iðju en hvort sem það var ætlun þeirra eða ekki verður skraf þeirra til þess að Bjarni sendir þá í Sunnudal til að hefna harma sinna. Hann segir þeim að hann telji þá best til þess líklegasta að þvo þennan flekk af virðingu sinni og biður þá að færa sér höfuð Þorsteins. Ekki töldu þeir félagar það ofverkið sitt og halda sem leið liggur út í Sunnudal.

Þar hitta þeir Þorstein og segja honum að þeir væru að leita hrossa en teldu sig ekki geta fundið þau við túngarðinn nema hann vísaði þeim á þau. Þorsteinn gerir það en viðskipti þeirra enda með því að Þorsteinn rekur þá báða í gegn með sverði sínu, bindur þá á bak öðrum hesti þeirra og lætur taumana á háls hestinum sem síðan töltir heim til Hofs. Á hlaðinu taka aðrir húskarlar ríkismannsins við félögum sínum og ganga í bæ og segja Bjarna að Þorvaldur og Þórhallur séu heim komnir og muni eigi erindislaust farið hafa.

Köld eru kvennaráð

Nú er allt kyrrt um hríð eða þar til Rannveig kona Bjarna getur ekki stillt sig um að minnast örlítið á það við bónda sinn í sænginni að um fátt annað sé meira talað í héraðinu en linkind hans við Þorstein stangarhögg. Bjarni býr sig þá til ferðar daginn eftir og heimsækir Þorstein í Sunnudal. Hann skorar á hann til einvígis við sig og tekur Þorsteinn áskoruninni. Áður en þeir berjast biður Þorsteinn Bjarna að sjá fyrir föður sínum falli hann.

Berjast þeir síðan á hól í Sunnudalstúninu af harðfengi miklu þar til Bjarni biður um hlé því hann þyrstir af erfiðinu, segist enda óvanari stritinu en Þorsteinn. Þorsteinn býður honum bæjarlækinn til að drekka úr og varla er Bjarni er búinn að svala þorstanum og bardaginn hafinn að nýju en hann verður þess var að skóþvengur hans er laus. „Margt hendir mig í dag,“ segir þá Bjarni. Stillingarmaðurinn Þorsteinn leyfir andstæðing sínum að binda þvenginn, gengur í bæ á meðan og sækir tvo skildi og sverð. Réttir hann Bjarna sverð og segir það frá föður sínum og ekki muni það bíta verr en það sem hann hafði áður, annan skjöldinn fær Bjarni líka en hinn ætlar Þorsteinn sér því hann segist ekki nenna að standa hlífðarlaus undir höggum Bjarna lengur.

Bjarni segist þá ekki geta skorast undan að berjast lengur en Þorsteinn lofar honum að höggva ekki frekt. Við það móðgast Bjarni og heggur allan skjöldinn af Þorsteini sem umsvifalaust svara í sömu mynt.

,,Stórt er nú höggvið,” segir Bjarni þá. En Þorsteinn bendir á að Bjarni hafi ekki hoggið minna. Þegar svo var komið voru þeir búnir að fá nóg af bardögum í bili og ákveða að sættast. Bjarni gengur til bæjar og ætlar að heilsa upp á Þórarinn gamla en karlinn er skapstyggur að vanda heggur til hans með sverði sem hann hafði falið undir sæng sinni. Bjarna hnykkir við og tilkynnir Þórarni að hann sé allra fretkarla armastur og muni hann hafa Þorstein son hans á brott með sér til Hofs og fá honum húskarla til að sjá fyrir búinu. Þorsteinn var síðan á Hofi með Bjarna eftir það.

Að lokum er sagt frá því að Bjarni hafi á efri árum ferðast suður um lönd og látist á Ítalíu og verið grafinn á bæ að nafni Vateri sem sé skammt frá Róm.

Þessi Íslendingasagnaþáttur er merkilegur ekki síst fyrir þær sakir að ófriðurinn milli Bjarna og Þorsteins tekur ekki á sig neinn hetjublæ. Menn eru seinþreyttir til vandræða og vilja bara sitja að búum sínum í friði. Það þarf eiginkonur eða alla sveitina til að reka þá af stað til mannvíga og sættir nást þegar menn eru þreyttir á að slást með bitlausum sverðum upp á hól. Þá riðu hetjur um héröð verður einhvern veginn merkingarlaust í þessu ljósi og kímnin sem skín af orðalagi þáttarins er af öðru og raunsærra tagi en fyndni annarra Íslendingasagna.

Konuraunir assesors Bjarna

Hér kemur annar Lesbókarpistill:

Hugsanlega tók fallegt vorveður með svalri hafgolu og útsýn til Snæfellsjökuls á móti assesor Bjarna Thorarensen þegar hann steig á land af vorskipi árið 1811. Líkt og venjulega þegar fréttist af skipakomu í fásinninu voru múgur og margmenni stödd í nágrenni fjörunnar þegar bátarnir renndu að landi með farþegana og ábyggilega hafa margir fylgst sérstaklega með embættismanninum unga og stungið saman nefjum um hversu glæsilegur hann væri og vel til fara.

Bjarni hafði verið skipaður aukadómari við landsyfirréttinn eftir níu ára dvöl í Kaupmannahöfn við nám og störf. Eitthvað hafði orðstír hans flogið á undan honum og menn þóttust vita að þar færi gáfumaður og skáld gott en jafnframt nokkuð aðsópsmikill, stórorður og grobbinn gleðimaður.

Bjarni sest fyrst að í Reykjavík hjá dönskum verslunarmanni Jens Klog og Guðrúnu Jónsdóttur konu hans sem var dóttir eins af vefurunum í Innréttingum Skúla fógeta. Jens lést skömmu síðar og flutti Bjarni sig þá um set. Maddama Klog var drykkfelld nokkuð og lenti af þeim sökum í basli eftir fráfall eiginmannsins. Líklega hefur henni þó ekki verið alls varnað því svo samdist með Bjarna og henni að hún yrði bústýra hans eða ráðskona.

Ástleitin ráðskona

Honum hefur sennilega gengið það eitt til að hlaupa undir bagga með þessari fyrrum húsmóður sinni en konan sá í sambúð þeirra prýðilegasta tækifæri til að komast á ný í örugga höfn hjónabandsins. Tvennt kom til er gerði það hálfundarlegt að maddaman færi að gera sér vonir um slíkt, annað það að hún var um fertugt en Bjarni tuttugu og átta ára. Hitt vóg þó þyngra að jafnættgöfugur maður og Bjarni Thorarensen gerði ákveðnar kröfur um ætterni væntanlegrar eiginkonu og uppfyllti maddama Klog ekki þau skilyrði. Henni hefur þótt að fyrrum kona danskættaðs kaupmanns sem að auki var bróðir þáverandi landlæknis mætti renna hýrum augum hærra en rétt og slétt vefaradóttir.

Auk þess er vitað af bréfum sem Bjarni skrifaði vinum sínum í Kaupmannahöfn að hann var fús til að sigla fleyi sínu í örugga höfn hjónabandsins og hafði leitað fyrir sér eftir kvonfangi en gengið bónleiður til búðar. Ekki er vitað hver sú stúlka var eða hvað kom til að hún hafnaði svo vænum biðli en maddama Klog hefur sennilega talið sig þess umkomna að sefa sorgir og sært stolt assesors Bjarna. Hann var þó á öndverðri skoðun. Hann taldi bústýru sína nálega gengna af göflunum og leið mikla önn fyrir ástleitni hennar.

Heimilisástæður assessorsins komust enn fremur jafnskjótt í hámæli og voru hafðar í flimtingum manna á milli. Gilti einu hvort um var að ræða sauðsvartan almúgann eða yfirstéttina sem Bjarni sjálfur tilheyrði hvorum tveggju var umræðuefnið jafngómsætt í munni. Að lokum sá Bjarni sér ekki annað fært en að reka maddömuna frá sér og flæktist hún þá manna á milli í bænum og hefur sennilega verið mörgum aufúsugestur er fýsti að frétta frá fyrstu hendi samskipti þeirra Bjarna. Hann tók allt þetta mál mjög nærri sér og þótti Reykjavík að eigin sögn hvimleiður bær. Sú mæða sem hann varð fyrir þar hefur líklega átt sinn þátt í því að hann varð fráhverfur bæjarlífinu og flutti sig upp að Gufunesi.

Krókóttar leiðir upp altarinu

Þegar ráðskonumálið hvímleiða var frá hefði mátt ætla að þessum unga menntamanni væru allir vegir færir að biðja sér konu sem honum sómdi en nokkrar ástarraunir biðu Bjarna áður en hann að lokum kvæntist. Því olli aðallega erkifjandi hans Magnús Stephensen en þrisvar tókst honum að spilla svo um fyrir kvonbænum Bjarna að hann varð af stúlkunni. Fyrst bað assessorinn Guðrúnar Stefánsdóttur frá Möðruvöllum í Hörgárdal en hún sagði honum upp eftir að hafa setið tvö ár í festum. Þá sneri hann augliti sínu að Odda á Rangárvöllum. Treysti Bjarni þar á að Ólafur Finsen bróðir stúlkunnar sem hann ætlaði sér hefði hug á að kvænast systur sinni. Ólafur reyndist hins vegar ástfanginn af annarri og varð þá ekki af frekari ástleitni af hálfu Bjarna í þeim ranni.

Næst leitaði hann fyrir sér hjá Stefáni amtmanni á Hvítárvöllum bróður Magnúsar Stephensen og var dóttir Stefáns föstnuð Bjarna. Magnús tók fljótlega að beita áhrifum sínum og skemmst frá því að segja að hann náði að telja bróður sínum hughvarf og bróðurdóttur sína á að bregðast orðum sínum.

Bjarni reið að lokum á laun vestur í Stykkishólm og bað Hildar Bogadóttur sem hann kvæntist fjórum dögum síðar. Í þá daga þóttu langar trúlofanir tilhlýðilegar svo þetta var nokkuð óvenjulegt. Líklega hefur hann ekki ætlað að eiga á hættu að nokkur næði að spilla þessu sambandi. Bjarni kom sem sagt að sunnan vopnaður giftingarleyfi til að allt mætti nú ganga sem greiðlegast og áður en Viðeyjarjarl hefði spurnir af ferðum hans. Hjónaband hans og Hildar varð þrátt fyrir flumbruháttinn farsælt og Bjarni hrósaði fljótt happi og taldi sig hafa hreppt góða konu. Minna mátti gæfan nú varla gera eftir að þær raunir sem hann hafði áður ratað í í kvennamálum.