mánudagur, janúar 16, 2006

Í stormi og hríð

Ég er nýkomin í vinnuna vind- og veðurbarin. Við Freyja fórum út klukkan sjö í morgun. Ég er að reyna að ganga með hana í klukkutíma á morgnana því ég veit aldrei hvernig gengur að bjarga henni um göngu í eftirmiðdaginn. Ég lagði af stað í kraftgallanum fullviss um að ég væri undir allt búin. Ég var varla komin niður í brekka þegar á mig skall hríð og haglél sem barði mig í andlitið. Ég gekk samt ótrauð áfram og niðri í Kópavogsdal datt allt í dúnalogn og ég farin að fækka fötum. Ég ákvað að fara tröppuhringinn og arkaði sem leið lá að þeim. Líkt og venjulega var ég fullfljót á mér því þegar að tröppunum kom sá ég að þær höfðu auðvitað ekki verið mokaðar. Ég skreið því þarna upp líkt og þegar menn feta sig upp sleðabrekku á jörkunum. Stundum rann ég niður aftur en þess á milli dró Freyja mig upp. Auðvitað skall á hríð um leið og ég var tekin að klifra þannig að ég var vind- og haglbarinn á vinstri hlið. Á endanum skreiddist ég upp síðustu þrepin, rennsveitt og eldrauð í framan. Þá tók ekki betra við. Allar gangstéttir voru fullar af snjó þannig að eina ráðið var að ganga á miðri götunni, óþolinmóðum bílstjórum til mikillar ánægju. Freyja var himinánægð með þetta allt og vildi helst eyða mun lengri tíma utandyra því ég varð hálfpartinn að draga hana heim. Niðri í Kópavogsdal fékk hún að vera laus og stökk eins og lítið ljón í alla skafla. Sumir voru stærri en hún sjálf og þá teygði hún höfðið aftur þannig að aðeins trýnið og skottið stóðu upp úr snjónum. Það var reglulega gaman að fylgjast með henni. Ég vildi að ég væri jafnhress með snjóinn og hún.