þriðjudagur, febrúar 21, 2006

Helen og nautið

Draumurinn Helenar um griðunginn góða var á þessa leið. Henni fannst hún stödd í Pennanum í Hallarmúla þegar naut nokkurt birtist og tók að elta hana. Helen hljóp eins og fætur toguðu um alla verslunina með nautið á hælunum. Skyndilega datt henni í hug að hugsanlega væri nautið að elta hana vegna þess að hún var í rauðri peysu. Helen reif sig úr peysunni og fleygði henni frá sér. Þá kom nautið til hennar og sagði: „Nú er ekkert gaman lengur. Viltu ekki fara í peysuna aftur?“ Og Helen Sjöfn reif sig í peysuna og það var eins og við manninn mælt. Nautið rauk af stað á eftir henni og hún hljóp eins og lungun þoldu.

Draumspeki eða verkefni fyrir Freud

Draumfarir fólks í minni fjölskyldu eru frægar af endemum. Ég hef rakið hér eigin drauma en Andri á góða spretti í draumalandinu og það á Helen systir líka. Þá kemur einkanlega upp í hugann eltingarleikur hennar við griðung einn mannýgan í Pennanum Hallarmúla en það skal ég segja ykkur seinna. Núna ætla ég hins vegar að rekja draum dóttur minnar sem hana dreymdi aðfaranótt sunnudags. Blessuðu barninu fannst það vera á klósettinu að gera númer tvö. Þá tók að bulla í klósettinu og vatnið flæddi upp í klósettskálina. Grommsið var við það að flæða yfir gólfið og Eva stóð ráðalaus hjá en þá tók vatnið í klósettskálinni að lækka aftur en eftir sat ugla með spekingssvip á andlitinu á klósettsetunni. Uglan færði sig síðan yfir í baðkarið og Eva settist á klósettið aftur og ætlaði að ljúka við það sem hún hafði byrjað á. Uglan starði hins vegar á hana svo krefjandi augnaráði að stúlkunni fipaðist og hún fann fyrir mikilli hræðslu. Draumurinn endaði eiginlega á þennan veg en þegar Eva athugaði í draumráðningarbók daginn eftir hvað það þýddi að dreyma uglu kom í ljós að hjá ungu ógiftu fólki er það fyrir því að það eignist heimskan maka. Nú er dóttir mín eiginlega tilneydd til að ná sér í kjarneðlisfræðing því annars munu allir fjölskyldumeðlimir aldrei hafa nokkra trú á andlegum kröftum hans. Nú þegar er ljóst að blessaður maðurinn verður ævinlega kallaður Ugluspegill.