Að hafa auga með eigandanum
Þau Matti og Freyja eru ákveðin í að hafa auga með eiganda sínum þessa dagana. Alveg síðan ég kom úr hringferðinni hafa þau vaktað mig. Freyja eltir mig um allt hús eins og hún vilji segja: Þú hefur sýnt þína sviksemi skepnan þín. Nú hleypi ég þér ekki úr augsýn. Matti aftur á móti stekkur á mig hvar sem ég sest niður og kemur sér fyrir í fanginu á mér og ekki nóg með það heldur er hann tekinn upp á því að koma sér fyrir á öxlina á mér þegar ég fer að sofa og hringa sig niður þar. Ég sofna því með malandi kött við eyrað á hverju kvöldi. Ekki leiðinleg vögguvísa það.