Votar systur væla hér
Vissulega er rigning úti og sannarlega er ég löt en stundum nær skylduræknin yfirhöndinni og svo fór um eittleytið í dag þegar ég ákvað að gleðja hundinn minn og fara með hann út. Ég hringdi í Svövu systur og bauð henni með. Í augnablikinu var skúrahlé og við hugsuðum okkur að nýta það til að hlaupa léttfættar hringinn í kringum um Rauðavatn með huggulega gula tík í eftirdragi. En margt fer öðruvísi en ætlað er. Við vorum varla komnar út úr bílnum þegar hellirigndi og innan stundar voru bæði við og hundurinn rennandi blautar. Reyndar hvarf hundurinn jafnskjótt og við hleyptum henni út úr bílnum og sást aðeins eftir það eins og gult strik á hlaupum inn og út úr skóginum. Eftir tæplega klukkustundar göngu og vætu sem samsvaraði góðri sturtu gáfumst við upp og snerum aftur í bílinn. Þegar Svava fór út bílnum sat eftir bleytublettur í farþegasætinu frammí sem var leiðinlega líkur pissubletti. Mér fannst þetta fyndið þangað til ég stóð upp sjálf og sá að ég hafði skilið eftir mig sömu ummerki. Nú sit ég hér heima og skelf af kulda og varð hugsað til gamals og góðs sorgarsöngs ákveðinna bræðra sem elskuðu sætindi umfram allt og sneri honum upp á aðstæður okkar systra.
Votar systur væla hér
velgjan löngu liðin er
í sæti blettur ljótur sést
pissubletti líkist mest.