Í sjálfheldu í kirkjubrekkunni
Varla er hægt að segja að færðin að undanförnu hafi verið upp á það allra besta fyrir gangandi fólk. Þrátt fyrir það verður að viðurkenna að ég hef aldrei lent í öðrum eins hremmingum og í morgun. Við vorum á leið upp brekkuna hjá Digraneskirkju þegar ég áttaði mig skyndilega á því að ég var komin í sjálfheldu í brekkunni. Ég stóð á litlum auðum bletti og það var saman hvert ég reyndi að stíga alls staðar var glærahálka og ég rann af stað niður brekkuna um leið og ég hreyfði mig. Það hjálpaði alls ekki í þessari aðstöðu að gulur hundur taldi að ég hefði stoppaði þarna í þeim tilgangi að leika við hann svo hann skottaðist glaðlegur í kringum mig og flaðraði upp um mig með reglulegu millibili. Með einstakri lipurð og snerpu tókst mér hvað eftir annað að koma í veg fyrir að ég rynni af stað með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Eftir japl, jaml og fuður tókst með með lægni að mjaka mér örlítið út á ísinn og ná taki á trjágrein. Með hjálp hennar og annarra sambærilegra gat ég svo togaði mig upp brekkuna og komist heilu og höldnu heim. Já, hætturnar leynast víða.