miðvikudagur, september 22, 2004

Blessað barnalán

Dóttir mín er komin í hóp þeirra nemenda Verzlunarskólans sem mun skemmta hinum á nemendamótinu. Til þess að ná þessari eftirsóknarverðu stöðu hefur hún þurft að fara í söngprufur, leikprufur og dansprufu. Meðan á öllu þessu stóð fannst henni hún ekkert geta ráðið í viðbrögð leikstjóra og tónlistarstjóra. Þegar tónlistarstjórinn stöðvaði hana, eftir að hún hafði lokið fyrsta erindinu í laginu sem hún hafði æft, gat hún alls ekki áttað sig á hvort það væri jákvætt eða neikvætt. „Þú þarft ekki að syngja meira,“ sagði Jón Ólafsson ábúðarfullur og stúlkan gekk út með stein í maganum og hélt kannski að hún þyrfti ekki að gaula neitt frekar þar sem tóneyra Jóns hefði verið nægilega sært með þessum örfáu laglínum. En nú er sem sé komið á hreint að hún hefur ekki þurft að syngja meira vegna þess að honum varð umsvifalaust ljós hvílíkir hæfileikar voru þarna á ferðinni. Þótt ég sé hreykin af stúlkunni minni verð ég þó að játa að sönghæfileikana hefur hún ekki frá mömmu.