mánudagur, mars 07, 2005

Kveðja

Pabbi minn dó á föstudagskvöldið. Hann fæddist 5. janúar 1921 og varð því 84 ára gamall. Undanfarnar vikur hafa verið mjög erfiðar og við þurft að horfa á hvernig honum hrakaði smátt og smátt. Þegar þannig er komið er dauðinn ákveðin lausn frá þjáningum. Ég er sátt við að hann hafi fengið að fara en söknuðurinn er að hellast yfir mig smám saman. Alla helgina var maður eins og sprungin blaðra, þ.e. allur vindur úr manni. Núna rifjast upp ýmsar minningar um pabba og samskiptin við hann. Ég man þegar hann lyfti Steinari Erni upp að glugganum á fæðingardeildinni svo hann gæti skoðað Andra nýfæddan. „Hvað eru allar þessar dúkkur að gera hérna? Hvar eru öll börnin?“ Spurði Steini sem hafði séð fyrir sér fullskapaðan leikfélaga. Síðar fór pabbi með Andra í tætutúra um stofuna heima í Bólstaðarhlíð og þótti ekkert ónýtt að hlusta á krakkann tauta: „Tæta, tæta.“ Eins og afi hans var búinn að kenna honum. Ég man líka eftir honum að stökkva um borð til Gumma þegar við sóttum hann upp á Grundartanga, út í Straumsvík og til Grindavíkur. Þá var pabbi í essinu sínu. Þennan heim þekkti hann eins og lófann á sér og naut þess að vera aftur innan um hrjúfa sjóhunda. „Sæll gamli. Þú ert alltaf sami helvítis auminginn.“ Voru kveðjurnar sem hann sendi gömlum kunningjum og samstarfsfélögum. Við pabbi vorum samferða í þessi 45 ár sem ég hef lifað og fyrir utan allar minningarnar sem tengjast fjölskyldunni þá var ekki ónýtt að geta leitað til hans, líkt og ég gerði oft þegar ég vann fyrir Ung í anda. Hann þekkti alla viðmælendur mína, ættir þetta og uppruna og starfsferil. Þannig gat hann iðulega fyllt upp í ótal göt í þekkingu minni og þulið fyrir mig lausavísur og ýmislegt fleira sem kom að góðum notum. Það er alltaf erfitt að kveðja en ég er fegin að pabbi minn varð ekki langlegusjúklingur á einhverri ömurlegri sjúkradeild.