Skrauthvörf og önnur straumhvörf
Svava systir skrifar um það á blogginu sínu hversu mjög það fari í taugarnar á henni þegar fólk talar um að einhver hafi tekið sitt eigið líf fremur en að segja að einhver hafi framið sjálfsmorð eða sjálfsvíg. Einhvern tíma heyrði ég þá skýringu hjá prófarkarlesurum Fróða að menn hefðu tekið upp þessa málvenju vegna þess að sjálfsmorð eða sjálfsvíg þættu ljót orð sem gætu ýft upp sársauka aðstandenda. Ef svo er finnst mér réttast að tala um að einhver hafi svipt sig lífi. Það er ekkert ljótt eða særandi við það og þetta er góð og gild íslenska. Reyndar fara svona skrauthvörf eða veigrunaryrði óskaplega í taugarnar á mér. Þetta er það sem á ensku er kallað euphemism og er gjarnan vísað til þess þegar fínar dömur spyrja hvar sé að finna restroom þar sem þær þurfi að powder their noses frekar en að spyrja hvar toilettið sé því þeim sé mál. Eitthvað svipað hefur verið að gerast í tengslum við ýmis atvinnuheiti og heiti á ákveðnum sjúkdómum.