fimmtudagur, maí 11, 2006

Sjötta skilningavit barnanna minna

Sjötta skilningavit barnanna minna er óvenjulega næmt þegar peningar og buddan mín eru annars vegar. Þetta rakst ég á aftur og aftur meðan bæði bjuggu heima en þá var ég ekki fyrr búin að fara í hraðbankann en tvö sakleysisleg og bjartleit börn birtust og tilkynntu mér að þau sárvantaði peninga fyrir bráðnauðsynlegum hlutum. Oftast nær endaði þetta með því að peningarnir mínir hurfu eins og dögg fyrir sólu og veskið var jafntómt og áður en ég fór í bankann. Í gærdag þurfti ég í hraðbanka til að geta borgað í stöðumæli og viti menn. Ég var varla fyrr komin heim en dóttir mín þurfti að bregða sér í ísbúð með vinkonu sinni svona til að hressa sig í próflestrinum. Ég sagði henni að hún mætti taka af smáaurunum í veskinu og hún hreinsaði budduna af klinki jafnrækilega og öflug ryksuga. Ísinn sem hún fékk sér hefur áreiðanlega verið bæði veglegur og hár því milli fimm- og sexhundruð krónur voru í buddunni. En blessuðu barninu er auðvitað ekki ofgott að rífa upp próflestrarorkuna með ofurskömmtum af sykri.