Ýmislegt um ætihvönn
Við Freyja eyddum deginum í að taka til og þrífa. Þegar við vorum búnar var allt orðið svo fallegt og hreint að við trítluðum niður í Kópavogsdal og klipptum slatta af ætihvönn til að skreyta með gólfvasa. Þá rifjaðist upp fyrir mér ævintýri okkar Andra í Elliðaárdalnum. Þá bjuggum við í okkar fyrstu íbúð í Breiðholti og til að hugga svolítið upp ákvað ég að hausti til að fara og tína hvönn áður en hún félli. Andri var fjögurra ára og trítlaði hreykinn heim með tvær risastórar hvannir sem voru stærri en hann sjálfur. Við hengdum fíneríið upp í eldhúsinu til að þurrka það og síðan átti að úða glæru lakki yfir allt saman. Hvannarskrattarnir höfðu ekki hangið lengi þegar ég tók eftir að eldhúsið var allt iðandi í svörtum pöddum. Í fyrstu vissi ég ekki hvaðan þær komu en fljótlega fór mig að gruna hvannirnar eða þegar ég sá prúða skrúðgöngu svartra depla feta sig niður eftir veggnum frá hvannavendinum. Hvannaskammirnar fengu að fjúka í ruslið og við Andri vorum á því að við hefðum naumlega sloppið við að vera étin út á gaddinn af svörtum pöddum. Seinna frétti ég að hvannatínsla mín hefði farið fram of seint því þegar hausta tekur koma alls konar kvikindi sér fyrir þar sem ætis er von og þess vegna er best að tína hvannir um mitt sumar. Að minnsta kosti vona ég það. Ef svartar pöddur fara að gera sig heimakomnar í húsinu þá veit ég alla vega um leið hvaðan þær koma.