Hell's Angels á reiðhjólum
Ég er sannfærð um að hjólreiðamenn eru útsendarar djöfulsins. Nú orðið fara hjólin svo hljóðlega um að ekki heyrist nokkurt múkk fyrr en allt í einu púff og hjólreiðamaður birtist við hliðina á manni. Á ferðum mínum með hundinn hefur þetta oft orðið til þess að ég hafi hrokkið í kút og líka lent í basli með að halda í tíkina sem reynt hefur að næla sér í meals on wheels. Ekkert hafði þó búið mig undir hina mögnuðu niðurlægingu sem ég varð fyrir í kvöld. Við Freyja vorum í sakleysi að viðra okkur í Kópavogsdalnum þegar ég fann að mjög brýnt var orðið að svara ákveðinni líkamlegri þörf sem oft lýsir sér með mikill þembu neðst í kviðarholinu. Til hádegisverðar í dag var baunaréttur og auk þess hafði ég hakkað í mig hálft kíló af lakkarís sem sennilega var ekki til að bæta loftganginn. Ég sá ekki nokkurn mann í nágrenni við mig svo ég ákvað að leyfa þessu að sleppa og það fór með tilheyrandi hljóðum sem áreiðanlega hefðu hreyft vel við hljóðmælingatækjum Svövu systur. Ég hafði hins vegar ekki fyrr heyrt fyrstu tónana í þessari sinfóníu en að hjólreiðamaður renndi sér fram hjá mér og enginn efi er á að hann naut til fulls tónanna. Eins og ég sagði helvítisengill.