miðvikudagur, ágúst 17, 2005

Hell's Angels á reiðhjólum

Ég er sannfærð um að hjólreiðamenn eru útsendarar djöfulsins. Nú orðið fara hjólin svo hljóðlega um að ekki heyrist nokkurt múkk fyrr en allt í einu púff og hjólreiðamaður birtist við hliðina á manni. Á ferðum mínum með hundinn hefur þetta oft orðið til þess að ég hafi hrokkið í kút og líka lent í basli með að halda í tíkina sem reynt hefur að næla sér í meals on wheels. Ekkert hafði þó búið mig undir hina mögnuðu niðurlægingu sem ég varð fyrir í kvöld. Við Freyja vorum í sakleysi að viðra okkur í Kópavogsdalnum þegar ég fann að mjög brýnt var orðið að svara ákveðinni líkamlegri þörf sem oft lýsir sér með mikill þembu neðst í kviðarholinu. Til hádegisverðar í dag var baunaréttur og auk þess hafði ég hakkað í mig hálft kíló af lakkarís sem sennilega var ekki til að bæta loftganginn. Ég sá ekki nokkurn mann í nágrenni við mig svo ég ákvað að leyfa þessu að sleppa og það fór með tilheyrandi hljóðum sem áreiðanlega hefðu hreyft vel við hljóðmælingatækjum Svövu systur. Ég hafði hins vegar ekki fyrr heyrt fyrstu tónana í þessari sinfóníu en að hjólreiðamaður renndi sér fram hjá mér og enginn efi er á að hann naut til fulls tónanna. Eins og ég sagði helvítisengill.

Báknið er komið til að vera

Tóta samstarfskona mín hefur undanfarnar vikur verið að bíða eftir að fá afgreiðslu hjá íbúðalánasjóði. Henni var sagt að tala við Hrafnhildi hjá Landsbankanum vegna þess en illa hefur gengið að ná í Hrafnhildi. Búið er að skilja eftir ótal skilaboð en Hrafnhildur svarar þeim ekki og hún er aldrei við. Í dag kom loks í ljós að Hrafnhildur er hætt að vinna hjá bankanum fyrir þó nokkru síðan en símastúlkurnar vísa enn á hana, gefa símann til hennar og taka niður skilaboð þegar hún reynist ekki við. Þetta minnir óneitanlega á hinn fræga umboðsmann stúdenta í rómönskum löndum LÍN. Hann var aldrei við en taskan hans var þarna svo maðurinn hlaut að vera rétt ókominn. Úa sem vann með mér í BÍ eitt sumar reyndi allt sumarið að ná í hann ásamt fleiri félögum. Um haustið kom í ljós að þokkapilturinn sá rak fasteignasölu í bænum en kom stundvíslega kl. 9 hvern morgun með töskuna sína inn á skrifstofur LÍN. Taskan stóð síðan vaktina fyrir manninn allan daginn meðan hann seldi fasteignir. Fyrir hönd töskunnar hirti hann laun og þótt honum væri umsvifalaust sagt upp þegar athæfið komst upp veit enginn hversu lengi taskan hafði í raun verið starfsmaður LÍN. Sjálfstæðismenn boðuðu einhvern tímann að báknið skyldi burt og áttu við skrifræðið. Ég held að báknið sé komið til að vera þrátt fyrir viðleitni eða kannski einmitt fyrir viðleitni sjálfstæðismanna.

Eins gott að fara ekki í leikhúsið í vetur