föstudagur, febrúar 18, 2005

Ödipusarkomplexinn gengur aftur

Á leiðinni heim úr vinnunni heyrði ég í útvarpinu að verið var að kjósa kynþokkafyllstu konu landsins á Rás 2. Óli Palli tók við atkvæðum og meira að segja þessi þaulvani útvarpsmaður hikaði ögn þegar ungur piltur á að giska þrettán til fjórtán ára hringdi inn og sagðist vilja gefa móður sinni atkvæði sitt. Móðir hans er ljósmóðir á Selfossi staðreynd sem pilturinn tók fram en ég hef ekki eftir hér vegna þess að ég haldi að ljósmæður eða Selfyssingar séu almennt meiri öfuguggar en aðrir. Drengnum virtist hins vegar mikið í mun að hlustendur vissu að við hvað hin kynþokkafulla móðir hans vinnur. Ég get ekki neitað að mér brá nokkuð við þetta og hefði sonur minn kosið mig kynþokkafyllstu konu landsins á þessum aldri hefði ég talið að eitthvað væri alvarlegt að honum og að eitthvað hefði mistekist hrapallega í uppeldinu. Tæp öld er síðan Freud skrifaði um ödipusarkomplexinn en margir hafa undanfarið orðið til þess að efast um kenningar þess ágæta sálkönnuðar. Samkvæmt þessu virðist sá komplex hins vegar lifa góðu lífi á Selfossi.

Glitský og glámskyggn máni

Á leiðinni í vinnuna í morgun blöstu við mér hátt á austurhimni þrjú glitský. Þau voru öll risastór og einstaklega falleg. Litbrigðin voru hreint ótrúleg allt frá silfurhvítu og gullnu yfir í fjólublátt og rautt. Mig hefur alltaf langað að sjá þetta náttúrufyrirbæri en hef ekki verið nægilega heppin hingað til. Þessi ský eru fremur sjaldgæf sjón en mér skilst að myndun þeirra hafi eitthvað með samspil sólarljóss og hörkufrosts að gera. Svava systir veit það áreiðanlega betur en ég. En þetta var sem sagt æðislegt og ég starði heilluð alla leiðina og fram eftir morgni gat ég ekki unnið vegna þess að ég var alltaf að hendast út að glugganum til að skoða skýin. Þessi yndislegu ský urðu hins vegar til þess að ég sá ekki mánann fyrr en ég kom út úr bílnum fyrir framan húsið hérna en þá sá ég hvar hann hékk hálfniðurdreginn rétt fyrir ofan Esjuna. Kannski hefur hann verið svona fúll yfir því að glitskýin stálu allri athyglinni.

Allt það sem mæður vita

Sonur minn þáði matarboðið sem kom mér mjög á óvart. Sennilega hefur hann talið sig geta varið sig og kærustuna, enda ýmsu vanur úr uppeldinu. Ég er hins vegar á því að mæður viti alltaf hvernig börnunum þeirra líður og stundum betur en þau sjálf. Þess vegna sendi ég honum þessa vísu núna áðan:

Í dag ertu lítill og smár
og óendanlega gugginn og grár.
Með svarta bauga
undir sitt hvoru auga
en á morgun líður þér skár.