Ödipusarkomplexinn gengur aftur
Á leiðinni heim úr vinnunni heyrði ég í útvarpinu að verið var að kjósa kynþokkafyllstu konu landsins á Rás 2. Óli Palli tók við atkvæðum og meira að segja þessi þaulvani útvarpsmaður hikaði ögn þegar ungur piltur á að giska þrettán til fjórtán ára hringdi inn og sagðist vilja gefa móður sinni atkvæði sitt. Móðir hans er ljósmóðir á Selfossi staðreynd sem pilturinn tók fram en ég hef ekki eftir hér vegna þess að ég haldi að ljósmæður eða Selfyssingar séu almennt meiri öfuguggar en aðrir. Drengnum virtist hins vegar mikið í mun að hlustendur vissu að við hvað hin kynþokkafulla móðir hans vinnur. Ég get ekki neitað að mér brá nokkuð við þetta og hefði sonur minn kosið mig kynþokkafyllstu konu landsins á þessum aldri hefði ég talið að eitthvað væri alvarlegt að honum og að eitthvað hefði mistekist hrapallega í uppeldinu. Tæp öld er síðan Freud skrifaði um ödipusarkomplexinn en margir hafa undanfarið orðið til þess að efast um kenningar þess ágæta sálkönnuðar. Samkvæmt þessu virðist sá komplex hins vegar lifa góðu lífi á Selfossi.