föstudagur, febrúar 18, 2005

Glitský og glámskyggn máni

Á leiðinni í vinnuna í morgun blöstu við mér hátt á austurhimni þrjú glitský. Þau voru öll risastór og einstaklega falleg. Litbrigðin voru hreint ótrúleg allt frá silfurhvítu og gullnu yfir í fjólublátt og rautt. Mig hefur alltaf langað að sjá þetta náttúrufyrirbæri en hef ekki verið nægilega heppin hingað til. Þessi ský eru fremur sjaldgæf sjón en mér skilst að myndun þeirra hafi eitthvað með samspil sólarljóss og hörkufrosts að gera. Svava systir veit það áreiðanlega betur en ég. En þetta var sem sagt æðislegt og ég starði heilluð alla leiðina og fram eftir morgni gat ég ekki unnið vegna þess að ég var alltaf að hendast út að glugganum til að skoða skýin. Þessi yndislegu ský urðu hins vegar til þess að ég sá ekki mánann fyrr en ég kom út úr bílnum fyrir framan húsið hérna en þá sá ég hvar hann hékk hálfniðurdreginn rétt fyrir ofan Esjuna. Kannski hefur hann verið svona fúll yfir því að glitskýin stálu allri athyglinni.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home