föstudagur, febrúar 11, 2005

Kamarraunir

Ég er ein af þeim sem alltaf velur vitlausa röð í stórmarkaðnum. Að verslunarferð lokinni skanna ég raðirnar við kassana og vel vandlega. Sú röð sem er styst og þar sem fólk er með minnst af vörum í körfunni verður ævinlega fyrir valinu. Það bregst hins vegar sjaldan að konan á undan mér er ekki með eitt einasta hæti í körfunni sinni sem er skannanlegt þannig að afgreiðslustúlkan hleypur milli tíu og fimmtán ferðir til að leita að verðinu. Í þeim tilfellum sem innrauði geislinn nær að lesa vöruverðið skammlaust er alveg öruggt að viðskiptavinurinn á undan mér taki upp á að kvarta og heimta að allar vörurnar séu skannaðar aftur til að tryggja að hann verði ekki snuðaður og gerist ekkert þessu líkt er ég svo stálheppin að lenda á hreyfihamlaðri afgreiðslustúlku með athyglisbrest sem vinnur á snigilhraða. Mér skilst að ég sé ekki ein um að verða mosavaxin í röðinni í stórmarknum en ég veit ekki hversu algengt það er að vera svo óheppin með almenningsklósett að ótti minn við þau stappar nærri fóbíu. Ég held í mér klukkutímunum saman frekar en að fara á klósettið á opinberum stað en þá sjaldan að ég neyðist til gerist alltaf eitthvað ömurlegt. Allir vita hvernig það er að sitja á páfastólnum og hafa nýlokið við að losa sig við það sem þurfti út og uppgötva þá að engan klósettpappír er að finna í þínum bás. Ég hef oft lent því og líka að klósettið reynist stíflað. Það er bókstaflega ekki hægt að lýsa þeirri örvæntingu sem grípur mann þegar nýbúið er að sturta niður á almenningsklósetti og í stað þess að fara niður svífur gromsið upp á móti þér. Eina leiðin sem þá er fær er að hlaupa eins og fætur toga eins langt og úthaldið endist. Það er líka pínlegt að tylla sér á klósett sem þjáist af sírennsli og uppgötva þegar upp er staðið að ekki er nægilegt vatn í vatnskassanum til skola burtu því sem þú skildir eftir. En alversta uppákoma sem ég hef lent í á almenningsklósetti átti sér stað í dag. Ég var búin að halda í mér dágóða stund og því var brýnt að setjast sem fyrst. Ég reif niðrum mig og hlammaði mér á setgagnið og viti menn það rann af stað og afturendinn á mér með. Það vildi mér til happs að klefinn var mjór og stað þess að skella í gólfið skullu fæturnir á mér utan í klefavegginn, innbyggjara næsta klefa til mikillar skelfingar. (Hann stóð snarlega upp, skellti niður og fór.) Ég mjakaði hins vegar setunni til baka og þorði ekki að hreyfa einn einasta vöðva meðan ég lauk við losun þvagblöðrunnar. Ég stóð líka ofurvarlega á fætur og sturtaði niður og forðaðist gersamlega að líta til hliðar til að athuga hvort eitthvað hefði ekki farið rétta boðleið til sjávar.

1 Comments:

Blogger Svava said...

En skemmtileg tilviljun, ég hef lent í svipuðum hremmingum. Það var á salernunum í Bíóhöllinni Álfabakka. Mjög gefandi í alla staði. Hef líka lent í því að fá helv. klósettrúlluhaldarann allan í fangið. Hata almenningsklósett

1:03 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home