fimmtudagur, febrúar 03, 2005

Með hjartað í buxunum

Dóttir mín tók bílpróf í gær og þótt móðurhjartað bólgnaði af stolti þá var ekki laust við að pumpan dældi nokkrum slögum of mikið þegar ég sá á eftir litla barninu mínu aka út af bílastæðinu hjá Sýslumanni í Kópavogi. Þangað fór hún til að sækja sér bráðabirgðaskírteini og ljómaði af hamingju þegar hún var komin með það í hendurnar. Hún fór á bílnum á frumsýningu nemendasýningar Verzló sem var í gær og ég gat ekki sofnað fyrr en hún kom heim. Já, þessi veröld er undarleg. Þegar börnin mín fæddust var mamma að tala um að tíminn liði svo hratt og fyrr en nokkurn óraði fyrir því væri þessi börn orðin fullorðin. Mér fannst þetta hin mesta firra og langt í að litla krílið mitt yrði sjálfbjarga. Mér fannst ég hafa nóg með að sinna barninu og hlakkaði mest af öllu til þess dags þegar það lærði að skeina sig sjálft. Nú lít ég hins vegar til baka og sé að það er aðeins örskotsstund síðan þessi nýbakaði ökumaður lá í vöggu og var háður mömmu sinni um allt.

2 Comments:

Blogger Svava said...

Börnin vaxa úr grasi hraðar en maður býst við. Í dag kom ég heim og mætti dóttur minni með maskara og augnblýant, sem hún hafði fengið að prófa í Body Shop. Mér fannst ég skyndilega verða níræð. Hjááálp !

11:46 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Þegar sonur minn var orðinn 1.85 á hæð og farinn að nota skó nr. 43 hugsaði ég með mér að kannski væri ég að verða fullorðin ... en svo þegar ég hugsaði það betur fattaði ég að það var ekki rétt.

2:42 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home