þriðjudagur, janúar 18, 2005

Fjör í flutningum

Í hádeginu á föstudaginn var okkur starfsmönnum Fróða tilkynnt að fyrirtækið yrði að flytja út úr húsnæðinu að Seljavegi innan tveggja daga. Það var ekkert verið að tvínóna við hlutina heldur bornir inn kassar, límbönd og aðrar nauðsynjar og síðan hverjum og einum gefið númer. Ég fékk númer 78 en Gurrí 28. Ég veit ekki af hverju hún var þetta framar en ég og tel mér trú um að tilviljun hafi ráðið hver fékk hvaða númer fremur en að þetta endurspegla hversu mikils hver starfsmaður er metinn innan fyrirtækisins. Ég segi við sjálfa mig tuttugu sinnum á klukkustund: Þetta er tilviljunum háð. Þú ert ágæt eins og þú ert. Þessi einfalda sálfræði dugir ekki fremur en fyrri daginn. Ég hef hins vegar hamast manna mest við að taka upp úr kössum, raða bókum og blöðum og fleiri í þeirri von að færast ofar í númeraröðinni ef við flytjum nú aftur. Svo vikið sé að öðru en mínu venjulega ofsóknaræði þá er reglulega notalegt hérna hjá okkur á Vikunni núna, hreint loft og allt. Það má alls ekki vanmeta slík hlunnindi. Allt í kringum okkur hamast flutningamenn, smiðir, rafvirkjar og tölvukarlar en við lemjum tölvuborðin af miklum móð og reynum að berja saman blað þrátt fyrir öll lætin. Já, það er sannarlega fjör um borð í MS Herjólfi.

3 Comments:

Blogger Svava said...

Ég myndi líta á þetta þannig að Gurrí sé framar í röðinni fyrir þá sem taka á af lífi eftir flutninganna. Sennilega hefur fyrirtækið ákveðið að fyrstu 30 verði teknir af lífi strax, 30-60 síðar í mánuðinum en þeir sem eru með hærra númer fá að lifa og starfa áfram í fyrirtækinu. So no worries my dear, þú ert akkúrat með rétta tölu.

10:41 f.h.  
Blogger Steingerdur hin storskorna said...

Þetta er alveg rétt hjá þér Svava. Rosalega verður gaman hér á næstu vikum að hlusta á aftökusveitirnar að verki fyrir utan gluggann.

11:06 f.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Sko, þú ert aftar í stafrófinu en ég og þannig eru númerin hugsuð. Hefði miklu frekar viljað fá nr. 78, það passar við heimilisfangið mitt. Mér finnst 28 vera hallærislegt númer. En ef að á að taka mig af lífi tek ég því eins og hverju öðru hunds- eða kattarbiti.
Þín að eilífu,
Gurrí

11:34 f.h.  

Skrifa ummæli

<< Home