Gleðilegt ár allir saman
Gleðilegt ár öll sömul og þakka ykkur fyrir þau gömlu. Síðastliðið ár var eitt hið besta og eitt hið versta í manna minnum í Neðstutröðinni. Gummi missti vinnuna og fékk aðra og veiktist síðan hastarlega rétt fyrir jól. Honum heilsast orðið sæmilega og er smátt og smátt að ná sér. Ég var seld ásamt öðrum innanstokksmunum og fastafé Fróða og tilheyrði hluta af árinu Odda en nú Tímaritaútgáfunni Fróða. Eftir margvíslegar vangaveltur um hvernig við, starfsfólk Fróða, vorum verðmetin í þessari sölu- og kaupgleði allri er ég komin að þeirri niðurstöðu að fólkið muni hafa verið verðlagt eftir flatarmáli og telst ég þar með næstdýrasti starfsmaður Fróða. (Hafa ber í huga að flatarmál er reiknað út lengd sinnum breidd. Dýrasti starfsmaðurinn er 196 sm á hæð og heldur breiðvaxnari en ég.) Addi Gumm. kom sá og sigraði prófessora við Háskólann og mun eftir áramót blanda sér í leitina að lækningu við krabbameini. Evó Hallís lauk jólaprófunum með sóma og mun halda sínu striki í vor. Þannig að þegar á allt er litið var 2004 viðburðarríkt og þótt stundum hafi gefið á bátkænu Neðstutraðarhyskisins hefur hún þó alltaf rétt sig við aftur. Við horfum bjartsýn fram á veginn og erum nokkuð viss um að róðurinn verður örugglega ekki verri á þessu ári.
2 Comments:
Áfram veginn í vagninum eeeEEEEEKKKKKKKK ÉGGGG! (sífellt hærri og tryllilegri rödd)
Nýja árið fer vonandi um þig mjúkum höndum Steinkmundur minn :-)
Skrifa ummæli
<< Home