föstudagur, febrúar 04, 2005

Skemmtileg sumarbústaðaferð

Ég var að koma heim úr sumarbústaðnum og tel að þetta hljóti að flokkast með styttri slíkum ferðum því hún varði í nákvæmlega fimm og hálfa klukkustund. Ástæðan fyrir þessari fljótaskrift var sú að þegar komið var að afleggjaranum upp að bústað Blaðamannafélagsins reyndist hann ótrúlega sundurgrafinn og illfær. Ég bað Guðmund að leggja ekki í afleggjarann og kvaðst ætla að labba upp að bústaðnum og kanna aðstæður. Hann hélt nú Santa Fe hefði sig yfir smáræði eins og fáeina skipaskurði og gryfjur á stærð við Miklagljúfur. Ég hleypti tíkinni samt sem áður út og ákvað að ganga af stað. Ég var komin nær upp að bústaðnum þegar ég uppgötvaði að ekkert bólaði á Guðmundi á sínum fjallabíl. Ég sneri því við og kom að honum þar sem hann sat fastur tveimur og hálfum metra frá beygjunni inn á afleggjarann og minn var kolfastur. Eftir klukkutíma puð með skóflu, plönkum og handafli okkar hjóna gáfumst við upp og hringdum eftir hjálp. Hálftíma síðar kom vingjarnlegur bóndi á sönnum fjallatrukk og dró okkur hjónin upp á veg. Tíkin skemmti sér konunglega í snjónum á meðan og gerði meira að segja tilraun til að bera plankana að bílnum. Ég býst við að þar með hafi vinnuhundurinn komið upp í henni. Við lögðum sem sé af stað úr bænum klukkan tólf og klukkan hálf sex renndum við Santa Fe inn í heimkeyrsluna heima. Þetta er næstum alveg jafnskemmtileg ferð og bíltúrinn með Möggu gömlu frænku til sællar minningar. Þá stóð til að renna með gömlu konuna austur á Þingvelli en bíllinn hans pabba bilaði við bílskúrana í Bólstaðarhlíð. Fyrir þá sem ekki þekkja til er þessi vegalengd um 300 m. Ég gekk aftur heim í kotið þeirra pabba og mömmu við hlið Möggu frænku. Gamla konan sneri sér að mér á leiðinni og sagði brosmild: Þetta var reglulega skemmtileg ferð. Stutt en skemmtileg.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home