fimmtudagur, febrúar 10, 2005

Svifdrekadraumar

Við Freyja gengum Kópavogsdalinn í gær líkt og hefur verið okkar von vísa fram að þessu. Skyndilega rak ég augun í heiðgula og bláa druslu sem sveif hátt upp á himninum. Þetta var eins og stór vængur og bönd niður úr honum. Ég sá strax að þessi risavængur var of stór til að vera flugdreki og eðlislæg forvitni rak mig af stað í átt að fyrirbærinu. Minnug þess að forvitnin drap köttinn gekk upp á hæð hinum megin í dalnum til að geta horft á undrið úr öruggri fjarlægð. Frá útsýnisstað mínum sá ég að vængurinn, sem var heldur minni en fallhlíf, var festur við skíðamann sem þaut fram og aftur um tún í botni dalsins. Skíðamaðurinn var ekki með neina stafi en hélt í bönd vængjarins og stýrði sér þannig. Stundum tókst hann á loft en þess á milli sveif hann um túnið eins og undarleg hraðskreið geimvera. Maðurinn var alveg ótrúlega laginn við að stjórna skriðinu og því í hvaða átt hann fór. Eins og alltaf þegar um íþróttir er að ræða virðist listin svo fáránlega auðveld þegar maður sér leikinn íþróttamann að verki. Ég horfði á þetta og hugsaði: Þetta er ekkert mál. Meira að segja ég gæti þetta. En svo mundi ég að íþróttir hafa aldrei verið mín sterka hlið og þegar ég fór í skíðaferðalag með Hlíðaskóla forðum var ég eini nemandinn sem komst ekki einu sinni upp í byrjendabrekkuna því ég datt alltaf á rassinn í lyftunni. Það er alltaf best að vera raunsær. Ef ég reyndi einhverjar svifdrekaskíðalistir fyki ég sennilega eitthvað út í loftið og guð veit hvar og hvort ég kæmi niður aftur.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home