þriðjudagur, febrúar 08, 2005

Stjórnlausir strætisvagna og skólabílar í klandri

Ég skaut því að samstarfsmönnum mínum á kaffistofunni hér áðan að ég og hundurinn virðumst hafa einhver meinleg áhrif á langa bíla ætlaða til fólksflutninga. Til marks um það er að síðsumars var ég á gangi með hundinn á túninu fyrir neðan Bókasafn Kópavogs. Þá heyri ég einhverja skruðninga og lít við. Við mér blasti stjórnlaus strætisvagn sem rann niður brekkuna. Það vildi mér til happs að hann stöðvaðist á stórum steini því ég stóð auðvitað eins og meinasauður með hund í bandi og starði á vagninn. Hefði steinninn ekki staðið einmitt á þessum stað hefðu minningargreinar um mig sennilega tíundað hversu sorglegt það væri að hrifsa konu burtu í blóma lífsins með heiðgulum, megastórum morðtólum. Í gærmorgun var ég svo að koma upp úr Kópavogsdalnum þegar við mér blasti appelsínugul rúta, hálf ofan í skurði með fólksbíl kyrfilega klesstan undir sér. Allir fjölmiðlar gerðu þessu slysi skil nema Ríkissjónvarpið en bílstjóri hafði misst stjórn á skólabílnum í hálku. Tvö börn voru í bílnum og bæði sluppu ómeidd. Enginn var í fólksbílnum sem verður að telja mildi því sá hefði ekki þurft að kemba hærurnar eftir ferðina í skurðinn.

1 Comments:

Blogger Svava said...

Þegar ég var barn dreymdi mig ítrekað martraðir þar sem ég stóð á heimkeyrslunni í Bóló og þristurinn var bremsulaus að koma æðandi niður Háteigsveginn í áttina að mér. Þessir síendurteknu draumar áttu kannski rót að rekja til þess að systir mín laðar að sér slík óhöpp, undirmeðvitund mín hefur skynjað það og því sent mér þessar aðvaranir. Reyndu að halda þig frá helstu akstursleiðum strætisvagna, áður en einhver sakleysinginn meiðist.

9:34 f.h.  

Skrifa ummæli

<< Home