Southern Comfort fylleríið fræga
Svava og Gurrí voru að biðja um Southern Comfort söguna og hér kemur hún. Þetta var á sokkabandsárum okkar Margrétar systur minnar. Við vorum að stíga fyrstu skrefin í áfengisnotkun og það kom fyrir að við áttuðum okkur ekki alveg á hver munurinn væri á sterkum vínum og gosdrykkjum. Laugardagskvöld nokkurt höfðum við keypt flösku af Southern Comfort, sem við höfðum heyrt að væri eðaldrykkur, ásamt Höllu vinkonu og Svölu. Við sátum heima hjá Kristjáni, bróður Svölu, og konu hans Sveinu og drukkum. Fljótlega varð Margréti ljóst að systir hennar þambaði þennan sæta drykk líkt og Bergþór þurs í Bláfelli slokraði í sig sýruna forðum. Hún reyndi því að vara hana við og fá hana til að hægja ögn á teygunum. Allt kom fyrir ekki því yngri systir hennar kvaðst hafa fullkomna stjórn á þessum drykkjunni og alveg vita hvað hún væri að gera. Brátt stóðum við upp til að fara á ball og Steingerður greip flöskuna og hugðist hafa slurkinn sem eftir var í sinni umsjón. Vel rúm botnfylli var eftir í flöskunni og Magga bauðst því til að taka hana. Þú getur misst þetta, sagði hún við systur sína. Ekki aldeilis, var svarið og síðan æddi ég af stað niður stigann. Ég var varla búin að stíga nema í efstu tröppuna þegar ég missti flöskuna sem umsvifalaust fór í þúsund mola og sætt vínið dreyfðist um gólfdúkinn í stiganum. Passaðu þig, sagði Magga við systur sína. Þú getur runnið og dottið. Fíflið lét það sem vind um eyru þjóta og stökk eins og hind niður stigann. Þar sem ég stóð á dyrapallinum heyrði ég skyndilega hrrrmp, rimppp, rrrrimmp, rimpp fyrir aftan mig og þegar ég leit við sá ég systur mína renna tröppu af tröppu þar til hún hlunkaðist á pallinn og stöðvaðist þar. Margréti hafði sem sagt ekki tekist að vara sig á þeirri keldu sem hún hafði þó varað systur sína við og runnið í sætu sullinu. Ég hneig niður af hlátri og hunskaðist út í keng af kátínu yfir óförum systur minnar en henni var ekki skemmt. Það var Höllu og Svölu ekki heldur en þær reyndu að þrífa upp viðbjóðinn þar til Sveina gafst upp og rak þær út, enda engin okkar í hreingerningarástandi. Sveina var heldur ekkert of hrifin af okkur og ef ég man rétt var ég komin snemma heim þetta kvöld og sofnuð áfengissvefni í rúminu mínu. Ég get því með sanni sagt að óhófleg notkun á Southern Comfort er hvorki til að efla dansmennt manna né til þess fallin að auka þeim vinsældir hjá þeim sem þrífa hús. Já, ég má sannarlega hugsa með ákveðinni hreykni til Southern Comfort kvöldsins fræga.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home