þriðjudagur, september 21, 2004

Alltaf leggst manni eitthvað til

Ég steig út úr bílnum heima hjá mér seint í gærkveldi. Ég var með innkaupapoka, töskuna mína, símann, stílabók og penna í höndunum. Svo illa vildi til að steinn skrapp undan fætinum á mér og ég hnaut við. Síminn þeyttist úr höndunum á mér og þegar ég reyndi að grípa hann fór taskan af stað og allt hvolfdist úr henni á stéttina. Ég beygði mig niður til að tína upp eigur mínar og missti þá pennann og stílabókina. Eftir mikið japl, jaml og fuður var flest komið á sinn stað og ég reisti mig upp og gekk af stað að útidyrunum. Þá sá ég glampa á eitthvað við endann á heimreiðinni og gekk þangað. Hvað haldiði? Þetta var hundrað kall. Já, alltaf leggst manni eitthvað til.