miðvikudagur, mars 09, 2005

Að vaða í villu og svíma

Undanfarna daga hefur mér fundist ég vaða í villu og svíma. Ég veit ekki hvort þetta tengist andláti pabba en mér finnst eins og allt sé einhvern veginn loðið og í móðu. Ég er hræðilega utan við mig og gleymi lyklum, símum, pennum og öðru lauslegu hingað og þangað. Í dag tók þó steininn úr þegar ég ætlaði að aka sem leið lá niður í Laugar þar sem ég átti að hitta viðmælanda minn og keyrði tvisvar fram hjá innkeyrslunni. Ekki vegna þess að ég sæi hana ekki heldur vegna þess að ég var bara utan við mig.

Dream on baby (dreymi þig áfram barn)

Alls kyns draumarugl heldur áfram að hrjá mig. Að vísu segir Gurrí þetta allt fyrir peningum en yfirleitt eru peningadraumar fyrir útlátum hjá mér fremur en aukinni innkomu. (Þarna er nú bölsýnin hans pabba farin að ganga aftur í mér.) Hvað um það, snúum okkur nú að sögunni sem ég ætlaði að segja núna. Nóttina áður en pabbi dó dreymdi mig að ég væri á ferðalagi úti á landi. Landslagið var óskaplega fallegt og meðal þess sem blasti við var stór og afarfagur foss. Í fyrstu var fossinn fagurgrænn og eins og seigfljótandi en síðan breyttist hann í tært vatn. Helen systir var með mér og af einhverjum ástæðum sem mér urðu aldrei kunnar í draumnum var ég öskureið út í hana. Ég orgaði á hana að hún væri að eyðileggja fyrir mér ferðina og síðan réðst ég á hana og barði hana fast með krepptum hnefa í magann. Ég man að stórt mar í laginu eins og hnefi kom í ljós á maganum á henni en Helen kvartaði ekki og virtist alls ekki finna fyrir þessu. Flestir vita að Helen systir getur reynt svo á þolinmæði umburðarlyndustu dýrðlinga að þeir kreppi hnefa en þetta var vissulega fulllangt gengið jafnvel í draumi. En eftir að ég hafði skoðað hinn dýrðlega marblett á maga systur minnar var sá draumur búinn. Í nótt dreymdi mig svo að ég væri grálúsug og ég barðist við að tína lýsnar úr höfði mér til að losa mig við kláðann. Ef rétt reynist hjá Gurrí að þetta sé fyrir peningum er ég ánægð en hvað skyldi ofbeldi gegn systur sinni þýða í draumi?