Fegurðardrottningin sem missti andlitið
Í gær mátti sjá flennistóra fyrirssögn á forsíðu Fréttablaðsins: Missti gjörsamlega andlitið. Það reyndist vera nýkjörin ungfrú Heimur sem hafði orðið fyrir þessu óhappi. Gurrí samstarfskona mín benti mér á að þetta væri sannarlega óheppilegt fyrir fegurðardrottningu. Blessuð stúlkan var kjörin út á andlitið m.a. og þegar hún er búin að missa það verður maður að spyrja sig hvort hún haldi titlinum. Við þetta ofurvenjulega fólk sem stöndumst ekki alheimsfegurðarstaðla megum kannski alveg við því að tapa andlitinu en andlitslaus fegurðardrottning er hálfþunnur þrettándi. Við verðum bara að vona að stúlkukornið finni fésið sitt og setji það upp sem fyrst svo hún geti haldið áfram að vera landi og þjóð til sóma.