þriðjudagur, nóvember 16, 2004

Hin margbrotna manneskja

Alveg er það hræðilegt að vera margbrotinn og margklofinn persónuleiki. Ég var að enda við að senda syni mínum þrenn SMS-skilaboð í gegnum Netið hjá Símanum. Hið fyrsta var svona: Kl. er 14.37 og dómsdagur er upprunninn. Þú ert beðinn að koma fyrir hástól drottins kl. 14.39. Rúmum tíu mínútum síðar fóru þessi skilaboð í loftið: Ert ekki að koma drengstauli. Hér er beðið eftir þér. Kv. Guð. Rétt áðan sendi ég svo þetta: Þú misstir af stefnumótinu. Við verðum því að vísa þér á dyrnar í neðra. Kv. Lykla-Pétur. Út af fyrir sig væri þetta nú bara gott og blessað ef ég kveldist ekki af samviskubiti og velti alvarlega fyrir mér hvort ég ætti ekki að hringja í drenginn og segja honum að dómsdagur sé ekki dag. (Og bæta við að hann verði á morgun). Að auki er kannski vissara að fullvissa hann um að hann þurfi ekki að leita uppi veginn til vítis. Sá er varðaður góðum áformum og því auðfundinn. Hehehe. Þegi þú Steingerður. Haltu kjafti Steingerður. Þú ert fífl. ÞEGIÐ ÞIÐ ALLAR SAMAN. ÉG HEF MARGSAGT YKKUR AÐ HALDA YKKUR Á MOTTUNNI ÞEGAR VIÐ KOMUM FRAM OPINBERLEGA.