föstudagur, september 02, 2005

Rúmfötin hans Andra ganga aftur

Andri fékk senda þessa limru fyrir örskömmu og þykir sennilega engum mikið þótt móður hans blöskri.

Að verja sín rúmföt er ákveðin list.
Annars finnst mörgum það helvíti trist,
að þú þeim stelir
og fyrir mér felir
slíkt þekktist ekki fyrir Krist.

Að týna tíndum sveppum og finna þá aftur

Í gær las Gurrí fyrir mig frétt úr DV þar sem sagt var frá manni sem hafði verið handtekinn fyrir að týna ofskynjunarsveppum. Hvorug okkar vissi að það væri glæpsamlegt athæfi að týna hlutum. Skyldi þá vera hægt að handtaka menn fyrir að týna amfetamíni í miðbænum? Kannski hefur lögreglan fundið týndu sveppina, tínt þá í poka og síðan handtekið manninn. Tíndu sveppirnir væru þá sönnunargögn í sakamálinu um týndu sveppina. Það fer að verða svolítið erfitt að skilja þetta, enda gáfumst við Guðríður upp á að reyna að fá botn í fréttina.

Af fylleríisrausi, blaðri og þvaðri

Ég fór á pressukvöld hjá Blaðamannafélagi Íslands í gærkvöldi og þar var rætt um hvort blaðamenn mættu hafa skoðanir. Margt skemmtilegt kom upp á þarna og m.a. má nefna að Bjarni Harðarson, ritstjóri Sunnlenska fréttablaðsins, lýsti þeirri skoðun að hjartveiki í merkingunni taugaveiklun hefði aukist mjög í samfélginu og við værum orðin hrædd við skoðanir og farin að krefjast mun siðfágaðri hegðunar en áður. Ákveðið umburðarlyndi eins og það að þola mönnum að slá tennurnar hverjir úr öðrum á sveitaböllum, míga þar sem þeir standa og kalla aðra ónefnum færi minnkandi. Ég er sammála Bjarna, enda finnst mér sjálfsagt að allir berji mann og annan þótt mér finnist nú alltaf fara konum betur að hárreyta hvor aðra. Svo finnst mér sjálfsagt að krydda mál sitt með fúkyrðum og láta vaða yfir þá sem þú átt samskipti við yfir daginn. Ekki væri nú verra að kunna nokkur skammaryrði á rússnesku og láta þau fylgja þá sæju menn strax að maður hefði notið æðri menntunar. En svona í alvöru talað elskurnar. Einhver maður sest niður við tölvuna sína frekar slompaður og kallar aðra menn hyski og óþjóðalýð og er síðan steinhissa yfir að hann haldi ekki vinnu sinni hjá Ríkisútvarpinu. Auðvitað mega blaðamenn hafa skoðanir en þeir verða að gæta kurteisi þegar þeir viðra sínar skoðanir rétt eins og kennarar. Mér finnst t.d. ekki ásættanlegt að kennari kalli nemendur sína rassálfa á bloggsíðu. Og svona rétt að lokum þá vil ég benda á að 98% mannkyns eru fávitar og við hin í stöðugri smithættu.