miðvikudagur, nóvember 24, 2004

Af sjálfsvorkunn og skilningsleysi

Ég er hreinlega búin að vera að drepast úr verk í allan dag. Til hægri við naflann hefur komið sér fyrir nístingsár stingur sem hverfur ekki hvernig sem ég hreyfi mig og velti mér til. Verkur þessi varð hins vegar til þess að ég fór að rifja upp í huganum viðbrögð mömmu þegar eitthvað hrjáði mig í æsku. Væri ég lasin með hornös, höfuðverk og hálsbólgu eða með höfuðið á kaf ofan í klósettinum að berjast við að forðast að eitthvað óæskilegt sprautaðist úr hinum endanum, var ævinlega sagt: „Þetta lagast.“ Ákaflega huggunarrík orð á því augnabliki. Þegar ég datt og meiddi mig og staulaðist inn skælandi alblóðug með ótal skrámur var tekið glaðlega á móti mér með þessum orðum: „Þetta grær áður en þú giftir þig.“ Við þessar aðstæður kom nokkrum sinnum fyrir að ég sá rautt og óskaði þess heitast af öllu að eitthvert napurt morðtól skryppi skyndilega fram í hendurnar á mér. Það gerðist aldrei og sennilega á ég því að þakka að ég átti nokkurn veginn normal æsku.