miðvikudagur, febrúar 02, 2005

Sveiflur á súlunni

Ég hef nefnt áður hér á þessari síðu að ég er oft með seinheppnari manneskjum. Það sannaðist enn og aftur á föstudaginn var. Ég var að skrifa grein um súludans sem líkamsrækt og fékk þá stórkostlegu hugmynd að best myndi vera að myndskreyta greinina með myndum af sjálfri mér á súlunni. Vel gekk að fá leyfi til myndatökunnar og ég mætti klukkan átta á föstudagskvöldið á Goldfinger. Þar tóku á móti mér tvær þaulvanar og liprar dansmeyjar tilbúnar að kenna mér. Jónatan ljósmyndari var líka á staðnum og við vildum hefjast handa sem allra fyrst. Þá kom babb í bátinn. Ég mátti ekki fara á súluna í buxum því þá væri hætta á að ég rynni til og dytti í gólfið. Eftir japl, jaml og fuður varð úr að ég lagði til atlögu við súluna í hlemmistórum Bridget Jones nærbuxum og gegnsærri bleikri druslu sem önnur dansmeyjan kallaði pils. Þetta var ekki nóg því varla hafði ég lagt hönd á súluna þegar inn á staðinn stormuðu tólf karlmenn í steggjapartíi. Þegar þarna var komið sögu var eiginlega ekki um annað að ræða en að halda áfram og ljúka þessu og það gerði ég. Gummi var með mér því til stóð að við færum í heimsókn til vinafólks okkar að myndatökunni lokinni. Hann stóð við barinn og beið eftir konunni sinni þegar einn úr steggjapartíinu vatt sér að honum og spurði: Vinnur þú hérna. Nei, svaraði Gummi. Ég er að bíða eftir konunni minni. Hún er þarna á súlunni. Hann bandaði hendinni lauslega í átt að súlunni um leið og hann sleppti orðinu og maðurinn horfði opinmyntur á hann. Þetta kvöld var það pínlegasta sem ég hef lifað hingað til þó að nokkur önnur mætti nefna sem komast nærri þessu t.d. kvöldið sem Steingerður lék draug og hræddi líftóruna úr systur sinni og kvöldið sem ég, Magga og Halla fórum á Southern Comfort fyllerí. Fleira þarf ekki að segja um það kvöld. En eftir miklar vangaveltur og sálarstríð ákvað ég að birta söguna af sveiflum mínum á súlunni á Goldfinger í Vikunni og myndir af því líka. Það kemur í ljós fljótlega hvað broddborgurum þessa lands mun finnast um það.