Brestir í brynju ofurkonunnar
Ímynd ofurkonunnar sem rekur fyrirtæki af miklum skörungsskap, bakar, saumar, sníður, smíðar og flísaleggur heima af einstakri list, hefur verið skotin í kaf og það svo rækilega að ein úr hópnum sendi uppsagnarbréf til Morgunblaðsins og sagði stöðu sinni lausri. Lengi höfum við sem af meðfæddri húðarleti höfum látið vera að afkasta nema broti af dagsverki ofurkonunnar á heilu ári, þurft að sætta okkur við að þegja þunnu hljóði meðan hinar rekja afrekaskrána. Nú loksins höfum við hlotið uppreisn æru og getum farið að tjá okkur um að við höfum nú alltaf vitað að heilsunnar vegna væri best að fara sér hægt. Snigillinn og skjaldbakan séu auðsjáanlega ekki jafn vitlaus kvikindi og hingað til hafi verið talið.
Best er ævinlega að segja hverja sögu eins og hún gengur fyrir sig svo það skal játað hér og nú að í nokkurn tíma reyndi ég að ganga þvert gegn eðli mínu og hafa fullkomna stjórn á öllu. Inni á heimilinu var ég hlekkjuð við ryksuguna og með afþurrkunarklútinn snyrtilega bundinn um hálsinn. Meðan ég hrærði í súpupottum hékk síminn á annarri öxlinni og reyndi að ganga frá áríðandi verkefnum í vinnunni. Ef ég settist einhvers staðar var ég venjulega sofnuð áður en ég vissi af og þannig náði ég að sofa af mér flestar kirkjulegar athafnir í fjölskyldunni í nokkur ár.
Svo mörg járn voru í mínum eldi að margsinnis skaðbrenndist ég á því að þrífa um rangan enda á röngu skafti. Þannig kom það margoft fyrir að börnin voru samviskusamlega sótt í skóla og á íþróttaæfingar en töskur, skór, úlpur og aðrir fylgihlutir skildir eftir. Dagatöl og dagbækur voru útkrotuð í tímasetningum hinna ýmsu skyldumætinga fjölskyldumeðlima hingað og þangað og alltaf gleymdist eitthvað.
Fuglinn flaug upp í köttinn
Þegar að því kom að ég gafst upp á skipulagningunni og ákvað að lögmál glundroðans fengju að ríkja óheft á heimilinu kom fljótlega í ljós að allt gekk mun liprar en áður. Nú er þrifnaður ekki meiri en svo að ónæmiskerfi fjölskyldumeðlima er haldið ágætlega við. Börnin hætt að treysta á móður sína og farinn að bjarga sér sjálf og kötturinn náði að veiða sinn fyrsta fugl fljótlega upp úr þessu. Reyndar hef ég alltaf haft grun um að þrösturinn hafi flogið upp í hann ef miðað er við sjaldgæfa tilburði kattarins til að hreyfa sig að nokkru ráði.
En þótt sjálf hafi ég kristnast fyrr en þær konur sem í dag sjá ljósið, er samt enn mikil glýja í augum mér. Ég trúi nefnilega því að meirihluti íslenskra kvenna eigi fullkomin heimili, vel öguð börn, yndislega eiginmenn og þær sjálfar séu grannar, fullkomlega farðaðar, vel klæddar, alltaf jafn glaðar og elskulegar og fleyti ævinlega rjómann þegar kemur að stöðuhækkunum. Um daginn var mér sögð ágæt saga af tveim athafnakonum sem hittust í hádeginu til að borða saman. Ekki vildi betur til en svo að konurnar rugluðust á farsímum svo það endaði með því að önnur fjarstýrði fjölskyldu hinnar það sem eftir var dagsins og öfugt. Konurnar ákváðu að hittast um kvöldið og leiðrétta misskilninginn en þegar til kom veltu þær lengi fyrir sér hvort þær ættu að skiptast á símum aftur því fjölskyldurnar höfðu í báðum tilfellum látið mun betur að stjórn nýs framkvæmdastjóra. Sögur sem þessar eru örlítil huggun harmi gegn því þær benda þó til að í brynju ofurkonunnar sé að finna örlitla bresti.
Önnur hetjusaga ekki síðri er af konu sem jafnan var nokkuð sein fyrir á morgnana. Henni lá alltaf heil ósköp á út bíl og hljóp um húsið í leit að lyklum, tösku og öðrum nauðsynlegum fylgihlutum. Einu sinni sem oftar snarast hún út úr húsi heldur gustmikil og kveður eiginmanninn með kossi á tröppunum en þegar hún sneri sér við til að veifa uppgötvaði hún að það var nágranninn, kominn til að fá lánaðan bolla af sykri, sem hún hafði kvatt svo innilega.