mánudagur, september 27, 2004

Brestir í brynju ofurkonunnar

Ímynd ofurkonunnar sem rekur fyrirtæki af miklum skörungsskap, bakar, saumar, sníður, smíðar og flísaleggur heima af einstakri list, hefur verið skotin í kaf og það svo rækilega að ein úr hópnum sendi uppsagnarbréf til Morgunblaðsins og sagði stöðu sinni lausri. Lengi höfum við sem af meðfæddri húðarleti höfum látið vera að afkasta nema broti af dagsverki ofurkonunnar á heilu ári, þurft að sætta okkur við að þegja þunnu hljóði meðan hinar rekja afrekaskrána. Nú loksins höfum við hlotið uppreisn æru og getum farið að tjá okkur um að við höfum nú alltaf vitað að heilsunnar vegna væri best að fara sér hægt. Snigillinn og skjaldbakan séu auðsjáanlega ekki jafn vitlaus kvikindi og hingað til hafi verið talið.

Best er ævinlega að segja hverja sögu eins og hún gengur fyrir sig svo það skal játað hér og nú að í nokkurn tíma reyndi ég að ganga þvert gegn eðli mínu og hafa fullkomna stjórn á öllu. Inni á heimilinu var ég hlekkjuð við ryksuguna og með afþurrkunarklútinn snyrtilega bundinn um hálsinn. Meðan ég hrærði í súpupottum hékk síminn á annarri öxlinni og reyndi að ganga frá áríðandi verkefnum í vinnunni. Ef ég settist einhvers staðar var ég venjulega sofnuð áður en ég vissi af og þannig náði ég að sofa af mér flestar kirkjulegar athafnir í fjölskyldunni í nokkur ár.

Svo mörg járn voru í mínum eldi að margsinnis skaðbrenndist ég á því að þrífa um rangan enda á röngu skafti. Þannig kom það margoft fyrir að börnin voru samviskusamlega sótt í skóla og á íþróttaæfingar en töskur, skór, úlpur og aðrir fylgihlutir skildir eftir. Dagatöl og dagbækur voru útkrotuð í tímasetningum hinna ýmsu skyldumætinga fjölskyldumeðlima hingað og þangað og alltaf gleymdist eitthvað.

Fuglinn flaug upp í köttinn

Þegar að því kom að ég gafst upp á skipulagningunni og ákvað að lögmál glundroðans fengju að ríkja óheft á heimilinu kom fljótlega í ljós að allt gekk mun liprar en áður. Nú er þrifnaður ekki meiri en svo að ónæmiskerfi fjölskyldumeðlima er haldið ágætlega við. Börnin hætt að treysta á móður sína og farinn að bjarga sér sjálf og kötturinn náði að veiða sinn fyrsta fugl fljótlega upp úr þessu. Reyndar hef ég alltaf haft grun um að þrösturinn hafi flogið upp í hann ef miðað er við sjaldgæfa tilburði kattarins til að hreyfa sig að nokkru ráði.

En þótt sjálf hafi ég kristnast fyrr en þær konur sem í dag sjá ljósið, er samt enn mikil glýja í augum mér. Ég trúi nefnilega því að meirihluti íslenskra kvenna eigi fullkomin heimili, vel öguð börn, yndislega eiginmenn og þær sjálfar séu grannar, fullkomlega farðaðar, vel klæddar, alltaf jafn glaðar og elskulegar og fleyti ævinlega rjómann þegar kemur að stöðuhækkunum. Um daginn var mér sögð ágæt saga af tveim athafnakonum sem hittust í hádeginu til að borða saman. Ekki vildi betur til en svo að konurnar rugluðust á farsímum svo það endaði með því að önnur fjarstýrði fjölskyldu hinnar það sem eftir var dagsins og öfugt. Konurnar ákváðu að hittast um kvöldið og leiðrétta misskilninginn en þegar til kom veltu þær lengi fyrir sér hvort þær ættu að skiptast á símum aftur því fjölskyldurnar höfðu í báðum tilfellum látið mun betur að stjórn nýs framkvæmdastjóra. Sögur sem þessar eru örlítil huggun harmi gegn því þær benda þó til að í brynju ofurkonunnar sé að finna örlitla bresti.

Önnur hetjusaga ekki síðri er af konu sem jafnan var nokkuð sein fyrir á morgnana. Henni lá alltaf heil ósköp á út bíl og hljóp um húsið í leit að lyklum, tösku og öðrum nauðsynlegum fylgihlutum. Einu sinni sem oftar snarast hún út úr húsi heldur gustmikil og kveður eiginmanninn með kossi á tröppunum en þegar hún sneri sér við til að veifa uppgötvaði hún að það var nágranninn, kominn til að fá lánaðan bolla af sykri, sem hún hafði kvatt svo innilega.

Bölsýnismenn og bjartsýnisfólk

Viðhorf fólks til lífsins ráða oft mestu um viðbrögð þess við aðstæðum. Flest þekkjum við einhverja fyrirhyggjumenn sem virðast vel undir allar ágjafir búnir og ávallt hafa nokkuð góða hugmynd í upphafi um lyktir hvers máls. Sjálf er ég svo bjartsýn að jaðrar við heimsku og trúi stöðugt að eitthvað muni mér nú leggjast til áður en allt verði í óefni komið. Sjaldnast hafa nú stórkostleg höpp orðið mér til bjargar, frekar að svona hversdagslegt juð hafi að lokum skilað sér, en ekkert virðist það þó slá á bjartsýnina eða kenna mér ögn meiri fyrirhyggju. Enn fleygi ég mér út í hringiðuna án þess að velta mikið fyrir mér hvar ferðin muni enda, rétt eins og gamla konan sem ævinlega túlkaði drauma sína á þann veg að nú ætti einhver hennar nánustu von á happdrættisvinningi. Þegar það brást var ekkert verið að sýta það heldur beðið eftir næsta drætti því fyrst það brást í fyrsta sinn var það gulltryggt í annarri tilraun og svo auðvitað ekki allt var fyrr en þrennt var orðið og fullreynt í fjórða. Hún tók það svo sem ekkert nærri sér þótt biðin eftir þeim stóra lengdist stöðugt eftir því sem á ævina leið því hún naut þó alltaf ánægjunnar af tilhlökkuninni.

Margir hafa viljað skipta mönnum í tvo hópa eftir því hvort hægt er að kalla þá hálftómt-menn eða hálffullt-menn. Skiptingin byggir á gömlu sögunni um drykkjumennina sem horfðu á sama glasið og annar taldi glasið hálftómt en hinn sagði það hálffullt. Þeir sem almennt líta björtum augum á lífið og virðast trúa statt og stöðugt að hvernig sem allt velti muni þeir koma niður á fæturna eru þessir hálffullt-menn en hinir sem gegn svo mörgu sem guð þeim sendir gera kvíðann að hlíf eru hálftómt-menn.

Sumum finnst einhver vörn í að búast alltaf við hinu versta því þá komi svo þægilega á óvart ef hlutirnir einhvern tíma ganga vel. Þeim þykir jafnvel fró í að spá hinum verstu óförum í byrjun hverrar atburðarásar. Ég kannast vel við einn slíkan bölsýnismann og þegar fréttir bárust af því á dögunum að spámaður nokkur hefði séð fyrir endurfæðingu Krists í Þrándheimi á tilteknum degi og tilteknum tíma fylgdumst við í fjölskyldunni spennt með hvort af þessum merkisatburði yrði. Bölsýnismaðurinn tók lítinn þátt í vangaveltum hinna en þegar lát varð á skvaldri okkar kvað hann skyndilega upp úr eins manns hljóði: „Þið þurfið nú ekki að velta endukomu Krists mikið fyrir ykkur, fæðist hann í Þrándheimi verða þeir búnir að krossfesta hann áður en hann kemst til Óslóar.“

Ratar aldrei um borð í flugvélina

Þessi sami maður fylgdi eitt sinn barnabarni sínu í flug til Danmerkur. Eftir forspár um týndan flugmiða, glataðan farangur, gleymt vegabréf og önnur óhöpp sem hent gætu áður en um borð í vélina væri komið virtist allt ætla að ganga stórslysalaust og hann horfði á eftir drengnum upp rúllustigann í flugstöð Leifs Eiríkssonar tuldrandi: „Tjah! Hann skilar sér ábyggilega aldrei um borð í vélina.“

Í dag er okkur sagt að viðhorf okkar til lífsins skipti miklu um hvort menn nái markmiðum sínum eða líði almennt vel. Bölsýni og svartagallsraus ættu samkvæmt því aðeins að skila mönnum óhamingju en þeir bölsýnismenn sem ég þekki virðast oftast ákaflega ánægðir í sinni svartsýni og hreinlega oft hafa gaman af því að setja saman alverstu óhapparöð sem hægt er að ímynda sér. Þeir eru þó alls ekki ánægðir þegar hrakspár þeirra rætast heldur almennt jafn miður sín og aðrir.

Já, sennilega er í þessu sem öðru vandratað meðalhófið og áreiðanlega best að vera fyrirhyggjumaður sem stígur varlega til jarðar.

Púkar og dárar leika lausum hala

Ég er ein af þeim sem láta sér annt um íslenskt mál og leiðist því skelfilega að heyra því misþyrmt með málvillum og ambögum. Í þýðingum reynir ekki hvað síst heilbrigða skynsemi og góða tilfinningu fyrir máli. En þegar villur af þessu tagi verða fyndnar er hugsanlega hægt að fyrirgefa þær. Dæmi um slíkt var í Frank og Jóa bók sem ég las mér til gamans í æsku. Þar var sagt frá því að eftir dansleikinn hefðu Frank og Jói, bróðir, hans brugðið sér í gönguferð á ströndinni með döðlunum sínum. Mér þótti með ólíkindum að jafnheilbrigðir piltar og Frank og Jói töltu um strendur, götur eða fjöll með döðlur sér við hlið svo ég fór að leita mér upplýsinga um hvað gæti verið hér á ferðinni. Eldri systir mín grét af hlátri þegar henni var sýnd bókin því hún benti mér á að sennilega væri enska setningin eitthvað á þá leið að Frank og Jói hefðu farið með „their dates for a walk on the beach" en það er nefnilega allt önnur ella því þá er um að ræða stúlkurnar sem þeir áttu stefnumót við um kvöldið frekar en hinn gómsæta ávöxt döðlur, forboðnar eður ei.

Í kvikmyndinni Ship of Fools kemur einn farþeganna inn í skipstjóraklefann til Omars Sharif sem lék þann sem þar réði ríkjum og kvartaði hástöfum yfir framkomu skipverja við sig. Omar gengur að vínskáp hellir sér í glas og snýr sér að farþeganum óánægða og segir: „Would you like to join me?“ Þetta var þýtt: „Viltu vera mér samferða.“ En Omar var auðvitað að bjóða farþeganum hjartastyrkjandi drykk sér til samlætis. Annað frægt dæmi þegar einhver snillingur á fréttastofu Stöðvar 2 flutti frétt af opinberri heimsókn Vigdísar Finnbogadóttur til Danmerkur. Vigdísi var boðið að taka þátt í krydsild með Margréti danadrottningu. En krydsild þýðir í skoðanaskipti eða rökræður. Fréttamaðurinn var ekki betur að sér en svo að hann sagði að Vigdísi hefði verið boðið í kryddsíld ásamt Danadrottningu.

Prentuvillupúkinn ærsladraugur

Ekki er síðra þegar neyðarlegar prentvillur setja ofurlítið annan svip á efnið en til var ætlast. Þannig gleyma víst fáir kirtli krists sem var efni fyrirsagnar í Tímanum en orðið var haft með einföldu í stað ypsilons svo tilefni varð til langra vangaveltna meðal gárunganna yfir hver innkirtla Krists hefði þarna verið til umræðu. Sumir veðjuðu á nýrun, aðrir brisið og sumir vildu færa sig neðar.

Prentuvillupúkinn svokallaði var óvenjurætinn í dáraskap sínum í millitexta úr þöglu myndinni Gullæðið eftir Chaplin sem var á þá leið að ákveðinn bær væri einn dæmigerðra gullgrafarabæja sem sprottið hefðu upp eins og gorkúlur, nema kúlur varð að kúkur.

Prentvillupúkinn getur farið slíkum hamförum að telja verði hann til ættkvíslar svokallaðra ærsladrauga en það gerðist einmitt í gömlu myndinni Snake Pit eða Snákagryfjan. Þar leikur Olivia de Havilland unga geðbilaða konu sem lokuð er inni á geðsjúkrahúsi við heldur ömurlegar aðstæður. Ein hjúkrunarkonan er eitt sinn að ræða ástand hennar sem verið hafði óvenjuslæmt í það sinn og segir: „Þetta hafa verið algjör randvæði hún er búin að vera garsneggjuð í allt kvöld.“


Dýr morgunblundur

Á laugardagsmorgun var ég venju fremur syfjuð og stuggaði því hastarlega við tíkinni þegar hún reyndi að vekja mig klukkan hálfsjö. Ég hafði þó grun um að dýrið þyrfti að láta frá sér eitthvað svo ég skreiddist niður og opnaði útidyrnar. Drattaðist því næst hálfblind upp aftur og hélt áfram að sofa. Þegar ég vaknaði nærri þremur klukkustundum síðar blöstu fyrst af öllu við mér brúnir moldarblettir um allt rúmið mitt. Ég æpti upp yfir mig og flaug auðvitað fyrst í hug að viðbjóðslegur uppvakningur sendur af Svövu systur hefði spígsporað yfir rúmið mitt með þessum afleiðingum. Næst sá ég að rúmteppið mitt, sem lá snyrtilega samanbrotið á gólfinu, var allt út í svipuðum blettum, svefnherbergisgólfið sömuleiðis, teppið á stigapallinum og stiginn niður. Holið á neðri hæðinni var þakið í mold og forstofan eins og einhver hefði staðið þar í skurðgreftri. Í einu horni forstofunnar svaf engilfríður gulur hundur og ekki bar á mold á honum að ráði. Ég skyldi ekkert í þessu þar til ég fann upp í sófa í sjónvarpshorninu viðbjóðslega spýtu þakta mold, sniglum og sandi. Tíkin hafði sem sé sótt þetta einstaklega, aðlaðandi leikfang út í port þegar ég opnaði og afleiðingarnar voru þessi skemmtilegheit. Það tók mig þrjá og hálfan tíma að þrífa húsið eftir ævintýrið. Tíkinni reyndust sem sagt drjúg morgunverkin en morgunblundurinn var mér dýr.