Púkar og dárar leika lausum hala
Ég er ein af þeim sem láta sér annt um íslenskt mál og leiðist því skelfilega að heyra því misþyrmt með málvillum og ambögum. Í þýðingum reynir ekki hvað síst heilbrigða skynsemi og góða tilfinningu fyrir máli. En þegar villur af þessu tagi verða fyndnar er hugsanlega hægt að fyrirgefa þær. Dæmi um slíkt var í Frank og Jóa bók sem ég las mér til gamans í æsku. Þar var sagt frá því að eftir dansleikinn hefðu Frank og Jói, bróðir, hans brugðið sér í gönguferð á ströndinni með döðlunum sínum. Mér þótti með ólíkindum að jafnheilbrigðir piltar og Frank og Jói töltu um strendur, götur eða fjöll með döðlur sér við hlið svo ég fór að leita mér upplýsinga um hvað gæti verið hér á ferðinni. Eldri systir mín grét af hlátri þegar henni var sýnd bókin því hún benti mér á að sennilega væri enska setningin eitthvað á þá leið að Frank og Jói hefðu farið með „their dates for a walk on the beach" en það er nefnilega allt önnur ella því þá er um að ræða stúlkurnar sem þeir áttu stefnumót við um kvöldið frekar en hinn gómsæta ávöxt döðlur, forboðnar eður ei.
Í kvikmyndinni Ship of Fools kemur einn farþeganna inn í skipstjóraklefann til Omars Sharif sem lék þann sem þar réði ríkjum og kvartaði hástöfum yfir framkomu skipverja við sig. Omar gengur að vínskáp hellir sér í glas og snýr sér að farþeganum óánægða og segir: „Would you like to join me?“ Þetta var þýtt: „Viltu vera mér samferða.“ En Omar var auðvitað að bjóða farþeganum hjartastyrkjandi drykk sér til samlætis. Annað frægt dæmi þegar einhver snillingur á fréttastofu Stöðvar 2 flutti frétt af opinberri heimsókn Vigdísar Finnbogadóttur til Danmerkur. Vigdísi var boðið að taka þátt í krydsild með Margréti danadrottningu. En krydsild þýðir í skoðanaskipti eða rökræður. Fréttamaðurinn var ekki betur að sér en svo að hann sagði að Vigdísi hefði verið boðið í kryddsíld ásamt Danadrottningu.
Prentuvillupúkinn ærsladraugur
Ekki er síðra þegar neyðarlegar prentvillur setja ofurlítið annan svip á efnið en til var ætlast. Þannig gleyma víst fáir kirtli krists sem var efni fyrirsagnar í Tímanum en orðið var haft með einföldu í stað ypsilons svo tilefni varð til langra vangaveltna meðal gárunganna yfir hver innkirtla Krists hefði þarna verið til umræðu. Sumir veðjuðu á nýrun, aðrir brisið og sumir vildu færa sig neðar.
Prentuvillupúkinn svokallaði var óvenjurætinn í dáraskap sínum í millitexta úr þöglu myndinni Gullæðið eftir Chaplin sem var á þá leið að ákveðinn bær væri einn dæmigerðra gullgrafarabæja sem sprottið hefðu upp eins og gorkúlur, nema kúlur varð að kúkur.
Prentvillupúkinn getur farið slíkum hamförum að telja verði hann til ættkvíslar svokallaðra ærsladrauga en það gerðist einmitt í gömlu myndinni Snake Pit eða Snákagryfjan. Þar leikur Olivia de Havilland unga geðbilaða konu sem lokuð er inni á geðsjúkrahúsi við heldur ömurlegar aðstæður. Ein hjúkrunarkonan er eitt sinn að ræða ástand hennar sem verið hafði óvenjuslæmt í það sinn og segir: „Þetta hafa verið algjör randvæði hún er búin að vera garsneggjuð í allt kvöld.“
2 Comments:
Mér er í fersku minni þegar kvikmyndin "Dances with wolves" var frumsýnd. Fyrstu dagana hét hún "Úlfadansar" í bíóauglýsingunum, síðan benti greinilega einhver þýðandanum á að horfa á myndina og var þá titlinum breytt í "Dansar við úlfa". En frábærara dæmi er þegar myndin "How to make an American quilt" var sýnt í bíó. Hún hlaut í auglýsingum titilinn "Hunangsflugurnar". Ég sá myndina og beið alltaf eftir að einhversstaðar yrði minnst á hunangsflugur. Allt kom fyrir ekki, engar hunangsflugur birtust. Hinsvegar segir í upphafi myndarinnar að amma aðalhetjunnar og vinkonur hennar hafi verið meðlimir í "quilting bee", sem útlegst sem bútasaumsklúbbur, í lauslegri þýðingu. Væntanlega er það það sem þýðandinn góði hafði í huga þegar hann gaf myndinni þetta mjög svo "lýsandi" nafn.
Já, þetta eru yndisleg dæmi. Sömuleiðis er mér í fersku minni þýðingin úr kvikmyndinni Muse. Sharon Stone sagði þar: „You don't know what wrath is until you've seen Seuss pissed.“ Þetta var þýtt: „Þú veist ekki hvað reiði er fyrr en þú hefur séð Seif pissa.“ Eins var yndislegt þegar Stöð 2 flutti fréttir af atkvæðagreiðslu í breska þinginu. Þingforseti bað menn að greiða atkvæði eins og venja er á þeim bæ með því að færa sig vinstra eða hægra megin í salinn eftir því hvort þeir hyggðust greiða atkvæði með eða á móti. Forsetinn sagði: The aye's to the left and the no's to the right. Þetta var þýtt: Augun til vinstri og nefin til hægri.
Skrifa ummæli
<< Home