fimmtudagur, september 23, 2004

Ferðalangar og flakkarar

Í gær var bílinn minn á verkstæði. Ég var því bíllaus með sóma og sann frá átta um morguninn til klukkan fimm í eftirmiðdaginn. Reyndar var farið að fara um mig þegar lok vinnudagsins nálguðust og enn bólaði ekkert á bílnum. Ég hringdi þess vegna í verkstæðið og fékk þær upplýsingar að bílinn hefði ekki verið tekinn inn fyrr en örskömmu áður og ekki víst að hægt væri að ljúka verkinu fyrir lokun. Ég bar mig aumlega við þessi tíðindi, enda gönguferð framundan í góðra vina hópi og saumaklúbbur um kvöldið. Ég sá engin ráð til að komast á báða staði bíllaus. Afgreiðslumaðurinn var þá svo einstaklega elskulegur að benda mér á að dagurinn væri bíllaus og ókeypis í strætisvagna. Ég kvað samt ótal tormerki á því að ég kæmist leiðar minnar og afgreiðslumaðurinn ljúflyndi stakk því þá að mér að erfitt væri að giska á hvernig afar og okkar og langafar hefðu farið að við svipaðar aðstæður. Þetta hefði hann ekki átt að gera því þarna var ég á heimavelli. Ég stakk því að honum að afar okkar og langafar hefðu sjaldnar þurft að bregða sér af bæ en við og hver maður að meðaltali einu sinni lagt upp í langferð á ævi sinni. Langfeður vorir hefðu sömuleiðis haft þarfasta þjóninn sér til aðstoðar og þess vegna hefði engum með fullu viti jafnvel í þá tíð dottið í hug að labba úr Vesturbænum upp í Breiðholt nema brýna nauðsyn bæri til. Menn fyrri tíðar voru þar að auki ekkert sérstaklega hrifnir af flökkurum. Þeir voru umsvifalaust handsamaðir og sendir aftur í sína heimasveit ef í þá náðist. Langafi hefði sennilega ekki verið hrifinn af því að Sölvi Helgasson fengi ókeypis í strætó og kæmist þannig á framfæri hans hrepps. En ég fékk bílinn svo ekki reyndi á kraft postulahesta minna að þessu sinni né heldur sjálfsbjargarviðleitni mína á ögurstundu.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home