Hugmyndaríkir feður
Í gær gekk ég með Freyju umhverfis Kársnesið. Þegar við komum út í Kópavogshöfn varð ég alveg undrandi á því hversu mikil umferð var. Hver bíllinn rak annan og allir þurftu þeir að keyra fram og aftur um iðnaðarsvæðið þannig að ég gat ekki haft tíkina lausa. Ekkert af fyrirtækjunum á svæðinu var opið og var ég þess vegna steinhissa á þessu renniríi eða allt þar til ég fór að rýna inn í bílana. Undantekningarlaust var einn karlmaður í bílnum og eitt til þrjú lítil börn í aftursætinu. Þá rann upp fyrir mér ljós. Þessir elskulegu feður voru að gleðja litlu börnin sín með því að keyra með þau niður á höfn. Ég þarf sennilega ekki að segja lesendum þessarar síðu að á andlitum allra barnanna var örvæntingarfullur þjáningarsvipur en feðurnir gláptu áhugasamir ofan í trillurnar og upp í glugga bólstrunar- og bílaverkstæða.