föstudagur, maí 26, 2006

Hvað gera skal í gröfinni?

Sumir segja: „Það gefst nægur tími til að hvíla sig í gröfinni.“ Þetta eru vitaskuld dugnaðarforkar og drífandi konur en ég þessi vesæli húðarletingi er alvarlega farin að velta fyrir mér hvort engin tími muni gefast til hvíldar fyrr en í gröfinni. Það finnst mér fúlt því ég sé ekki fram á að geta lesið mjög mikið í niðamyrkri þar niðri og að auki er áreiðanlega lítið pláss til að borða súkkulaði og góðan mat þar. Mig bráðvantar hreingerningarþræl, garðyrkjumann og einhvern til að kela við. Guðmundur er nefnilega ekki væntanlegur fyrr en 9. júní. Það endar auðvitað með að ég neyðist til að gera þetta allt ein.

Nýútskrifaður leiðsögumaður, harla glaður

Jæja, þá er ég útskrifuð og orðin leiðsögumaður. Mér finnst ég stórkostleg en eitthvað freudískt hefur farið í gang hér því þegar ég skrifaði glaður hér áðan varð mér á að slá inn r í stað l. Þetta segir kannski allt sem segja þarf um þá upplifun að vera leiðsögumaður.