þriðjudagur, janúar 24, 2006

Fyrirsætukarríerinn að byrja aftur

Á morgun stendur mikið til í vinnunni. Ritstjóri fékk þá frábæru hugmynd að dressa upp ritstjórn Vikunnar og setja okkur í árshátíðargírinn. Síðan á að taka myndir af hópnum svona til að sýna hvernig er hægt að gera venjulegar konur óvenjulegri en þær eru vanalega. Mér finnst þetta bara reglulega skemmtileg tilhugsun en nú verður fyrirsætukarríerinn minn endurvakinn. Einu sinni sat ég fyrir á súlunni á Goldfinger, einu sinni við spilamennsku heima hjá mér (greinin fjallaði ekki um spilafíkla) og einu sinni fór ég í allsherjarmeikóver fyrir Vikuna. Það tók reyndar allan daginn, frá níu um morguninn til sex um kvöldið þegar ég staulaðist út dauðþreytt og pirruð. Þá þakkaði ég reyndar skaparanum fyrir að hafa gefið mér eitthvað annað í vöggugjöf til að notfæra mér í lífsbaráttunni en útlitið. Kannski verður það sama upp á teningnum á morgun.