föstudagur, maí 27, 2005

Upplýst um tilurð sólbrúnku dóttur minnar

Eva Halldóra Guðmundsson er ein af þessum manneskjum sem stingur hausnum út um gluggann þegar sólarglæta er og verður umsvifalaust sólbrún. Ég hef alltaf öfundað hana af þessum eiginleika vegna þess að melanínið í minni húð er annað hvort allt uppurið eða þá að það er hvítt. Svona til að gleðja dóttur mína og minna hana á þennan eiginleika sinn sendi ég henni þessi vísu á SMS.

Eva er lítill snudda
og eltir stóra tudda
um öll tún
og verður brún
af að smala þennan rudda.

Komin í bland við tröllin

Við Gummi fórum í mikla ævintýraferð í gær. Rétt um sexleytið ákváðum við að leita uppi Lambafellsgjá. Ævintýralegan stað sem ég hafði lesið um í nýrri útvistarbók eftir Pál Ásgeir Ásgeirsson. Okkur tókst eftir nokkra villu að ramba á réttan stað og fyrirhöfnin var vel þess virði. Gjáin er djúp og þröng og maður hreinlega gengur inn í fjallið. Fljótlega liggur leiðin upp á við og síðasti spölurinn er allbrött brekka þar sem skiptast á hál mold og lausamöl. Við slíkar aðstæður er gott að gjáin er þröng því göngumenn geta teygt út handleggina og stutt sig við gjáveggina beggja vegna. Gangan er ekkert erfið þótt brattinn geri það að verkum að maður mæðist ögn. Þegar upp er komið blasir við stórkostlegt útsýni og aðeins örfá skref eru upp á topp Lambafells. Ég verð að játa að þrátt fyrir að vera af alkunnu tröllakyni varð mér ofurlítið um og ó fyrst þegar ég gekk inn í gjána. Þetta er ekki heppilegur staður fyrir fólk með innilokunarkennd en frábær skemmtun engu að síður. Ég mæli hiklaust með því að fólk kynni sér á þennan hátt lífshætti íslenskra trölla.