Margt er á sig lagt
Á föstudaginn horfði ég á kvikmyndina Van Helsing. Þetta reyndist ágætisafþreying en ég verð að játa að eina ástæðan fyrir að ég tók spóluna var að Hugh Jackman leikur aðalhlutverkið. Maðurinn sá lítur þannig út að fæstar konur loka augunum þegar hann ber við sjóndeildarhring þeirra. Þessi reynsla var ánægjulegri en þegar ég lagði það á mig að horfa á kvikmyndina King David til að fá að sjá Richard Gere nakinn. Atriðið var ekki þess virði og sennilega hef ég hvorki fyrr né síðar varið tveimur klukkustundum jafnilla og þá. En Van Helsing reyndist ekki slík tímasóun þótt ég verði að viðurkenna að ef Hugh sprangaði ekki um skjáinn leðurklæddur með hattkúf þá væri söguþráðurinn varla nóg til að halda konu við efnið.