Kristni og kommúnismi
Ég lenti í smárökræðum við samstarfskonu mína um jafnaðarstefnu hér í hádeginu. Ég verð alltaf jafnhissa á hversu margir telja að sósíalismi eða kommúnismi feli það í sér að allir njóti nákvæmlega sömu kjara í samfélaginu. Það var hvergi boðað. Jafnaðarstefna eða sósíalismi leggur áherslu á að jafna kjör einstaklinganna þannig að allir hafi til þess jöfn tækifæri að mennta sig, vinna sig upp og njóta heilbrigðis og vellíðunar í samfélaginu. Það felur hins vegar ekki í sér að læknar, lögfræðingar, verkamenn og rónar hafi nákvæmlega sömu peningaupphæð úr að spila um hver mánaðamót. Langt í frá. Sósíalisminn gerir ráð fyrir að menn geti og vilji vinna sig upp og fái fyrir það umbun. Hins vegar er önnur stefna sem kallast kristni sem er mjög á móti auðsöfnun og hvetur ríka til að gefa fátækum allar eigur sínar. Sú stefna gengur út á það að allir menn séu jafnir og deili kjörum í einu og öllu. Þess vegna er nær að tala um hræsni þeirra sem telja sig kristna í þessu samfélagi fyrir að safna auð með augun rauð meðan aðrir svelta fremur en að áfellast þá sósíalista sem tekst að klífa metorðastigann. Í því fyrra felst nefnilega viðurstyggileg hræsni en í því síðara aðeins dugnaður við að nýta sér þau tækifæri sem samfélagið býður upp á og það oft þótt menn hafi byrjað mun neðar í þeim stiga en margur annar.