Tryllingsleg tækjafötlun
Ég er tækjafatlaðasta manneskja tuttugustu aldarinnar. Maðurinn minn heldur því fram að fötlunin stafi af því að ég nenni ekki að lesa eigendahandbækur (owner's manuals) en það er svívirðilegur áróður. Þótt hann sé með tækjaæði á háu stigi og finnist jafngaman að lesa um hvernig tengja á hátalara við sjónvarp og vídeótæki og venjulegu fólki að lesa reyfara þá er fötlun mín nokkuð sem ég get alls ekkert gert að. Vissulega viðurkenni ég fúslega að ég nenni ekki að lesa eigendahandbækur og sigra flest tæki á þann hátt að ég ýti á takkana til skiptist þangað til eitthvað gerist. Yfirleitt gerist eitthvað sem á alls ekki að gerast en skítt með það ég held bara áfram að pota á takkana og stundum, reyndar alltof sjaldan, tekst mér á endanum að fá tækið til að gera það sem það á að gera. Oftast endar þetta með því að tækið gefur frá sér hávært mótmælapíp og gefur upp andann til tækjaföðursins á himnum. En það er ekki mín sök. Menn eiga að hafa vit á að búa til sterk tæki sem þola smáfikt í tökkunum og svo eiga alls ekki að vera fleiri en tveir takkar á hverju tæki. Einn sem stendur á on og annar sem skreyttur er off. Allt annað á tækið að gera án þess að mannshöndin komi þar nærri eða eru þau ekki til þess að spara okkur vinnuna. Eins og þið munið kannski þá keypti maðurinn minn handa mér nýjan digital diktafón, ægilega tæknilegan og fínan. Mér fannst ég alveg vera búin að læra á hann eða þar til ég þurfti að eyða út nokkrum viðtölum í dag. Ég ýtti og potaði í hvern takkann á fætur öðrum en ekkert gerðist. Þegar ég var að því komin að fleygja kvikindinu í gólfið og stappa á því hurfu allt í einu öll viðtöl úr tækinu. Nú kvelst ég af kvíða því ég er nokkuð viss um að ég muni þurfa að hlusta á eitthvert þessara glötuðu viðtala aftur. Kannski er bara best að hakka diktafónssvínið.