föstudagur, ágúst 05, 2005

Hin fullkomna innbrotavörn

Á miðvikudagskvöldið hjá Jóhönnu og Sigga vorum við að ræða þjófavarnir og Jóhanna sagði okkur að í þætti á BBC hefðu vanir innbrotsþjófar lýst því hversu auðveldlega þeir kæmust fram hjá þjófavarnarkerfum húsa. Eina vörnin sem þjófarnir virkilega óttuðust voru hundar því aldrei væri hægt að vita hvernig dýrin brygðust við innrás inn á heimili þeirra. Ég hef verið að velta því fyrir mér síðan hvort að Freyja myndi láta okkur vita af innbrotsþjófi og verð að viðurkenna að ég hef það á tilfinningunni að hún myndi fagna honum ákaft og biðja hann að klóra sér á maganum. Ef þetta er rétt hjá mér er eina örugga þjófavörnin eldspúandi dreki. Í bókum Tolkiens er að finna góðar lýsingar á eðli þessara dýra og samkvæmt hans skrifum er eingöngu hægt að treysta því að þeir muni spúa eldi og gera sitt besta til að útrýma öllu kviku í nágrenni við heimili þeirra. Drekar eru þá góð þjófavörn en líka ein áhrifaríkasta gestafæla sem hægt er að ímynda sér.