föstudagur, júní 09, 2006

Hárleysi og hundafargan

Ég vaknaði að venju klukkan sjö í morgun og skreið grútsyfjuð út með hundinn. Á leið niður í Kópavogsdalinn var mér skyndilega kippt inn í þéttan runna við göngustíginn. Freyja hafði komið auga á makindalegan þröst sem var tína upp í sig maðka á jörðinni undir runnanum og það skipti engum togum hún æddi af stað með mig í eftirdragi. Ég skildi helminginn af hárinu á mér eftir inni í runnanum og fótleggirnir eru illa rispaðir. Þegar við komum niður í dalinn var þar mikið hundafargan og nokkrir rakkar höfðu mikinn áhuga á Freyju, enda er hún glæsitík. Hún stökk hins vegar undan þeim og sneri upp á sig með miklum tilburðum. Þetta var bráðfyndið. Hún minnti óneitanlega að daðursdrós sem gerir sig líklega en hopar alltaf þegar gera á alvöru úr hlutunum. Dýrin eru skyldari okkur en við höldum.