fimmtudagur, ágúst 04, 2005

Hundakæti

Í gærkvöldi heimsóttum við Jóhönnu og Sigga í sveitasæluna í Hvalfirði. Það er hreint út sagt yndislegt í Hlésey. Húsið er hlýlegt og fallegt og ótrúlega rúmgott. Útsýnið yfir fjörðinn bæði síbreytilegt og heillandi og kyrrðin þarna ómetanleg. Þau eru sæl og ánægð með lífið og auðséð að það á vel við þau að búa í sveitinni. Freyja kom með og kunni vel við að fá að hlaupa frjáls úti. Að vísu fannst Urði hún bæði frek og uppvöðslusöm og setti því rækilega ofan í við hana nokkrum sinnum. Þegar við lögðum af stað heim mættum við hundinum af næsta bæ. Ég hafði rennt niður rúðunni aftur í til að tryggja að hundurinn fengi nóg loft og nú notaði Freyjan mín tækifærið og tróð sér út um gatið. Hún var síðan ekkert á því að það lægi á að koma inn í bílinn aftur og ég mátti gera svo vel að elta hana niður að bænum Galtarvík þar sem hún skemmti sér við að smala aliöndum í dágóða stund áður en ég fékk færi á að grípa hana. Ég get fullvissað lesendur um að ég hef lært mína lexíu. Hundurinn getur hér eftir fengið að sitja í loftleysi og hita því opnist einhvers staðar rifa er augljóst að tíkin telur það tilboð um leik og skemmtun.