föstudagur, nóvember 26, 2004

Amerísk súpermódel og íslenskar slorpíur

Nú eru Ameríkanar búnar að finna sitt næsta súpermódel og stúlkan sú ljómaði af hamingju. Ég hef ekki mikla reynslu af fyrirsætustörfum en á mínum mögru árum frá 15-33 var ég oft spurð af hverju ég reyndi ekki fyrir mér í módelstörfum. Menn töldu að ég ætti erindi í slík störf og höfðu það helst til sannindamerkis um hæfni mína á því sviði að ég var löng og mjó. Ég var vön að svara því þannig að ég hefði aldrei haft metnað eða löngun til að gerast herðatré. Mörgum árum og þónokkrum kílóum síðar hóf ég störf á Vikunni. Þá starfaði við blaðið maður nokkur sem hafði þann starfa að leita uppi hversdagskonur og umbreyta útliti þeirra með því að klæða þær í rétt föt og greiða þeim öðruvísi. Þessi maður bað mig að gangast undir slíka breytingu. Ég verð víst áður en lengra er haldið að taka fram að maðurinn var og er hommi. Jæja, í einhverju bríaríi sagði ég já. Líklega hef ég með þessu viljað kanna hvort einhverjir möguleikar væru á að skipta um starfsvettvang ef ritræpan rynni einhvern tímann af mér. Klukkan átta um morgun umbreytingardaginn mætti ég á hárgreiðslustofu. Þar var í fyrsta skipti borinn litur í hárið á mér. Þegar hárgreiðslukonan kom með eitthvert fjólublátt og bleikt gums í skálum og hóf að smyrja því í hárið á mér fór hrollur um mig. Ég sá það fyrir mér að mesta umbreytingin á útliti mínu yrði sú að ég myndi eftir meðferðina minna meira á brúðu úr Prúðuleikurunum en manneskju. Til allrar guðs lukku reyndist gumsið innihalda aðra litatóna þegar það komst í snertingu við hár og ég fór með koparrautt hár og ljósar strípur út af stofunni klukkan langt gengin í tólf. Við tók hálftryllingsleg verslunarferð þar sem homminn reif fram fjólabláa kellingakjóla, stuttar buxur og hólkvíðar peysur. Ég er hlýðin að eðlisfari (ekki hlusta á mömmu hún hefur ekkert vit á þessu) svo ég samþykkti að máta og máta og máta og máta og fór í gegnum endalausar hrúgur af flíkum. Klukkan langt gengin í fjögur komum við niður á Fróða með nokkrar flíkur í pokum og þá tók við förðun og síðan myndataka. Ég hélt að þar með væri raunum mínum að mestu lokið og það eina sem ég þyrfti að gera væri að standa kyrr og brosa. Annað kom í ljós. Ég hljóp fram og aftur, stökk upp í loft, fetti mig og bretti, beygði og sveigði allt þar til ljósmyndarinn taldi að rétta lúkkið væri komið. Milli leikfimisæfinga þaut ég pungsveitt inni í afherbergi og skipti um föt. Þegar ég komst loks heim var klukkan að verða sjö að kvöldi og ég svo uppgefin að ég skreið síðustu metrana að rúminu mínu. Örþreytt breiddi ég sængina upp fyrir haus og hvíslaði: Þakka þér fyrir það elsku góði guð að hafa gefið mér aðrar talentur til að ávaxta en útlitið.