Augnaráðið segir allt
Freyja kann að bíða. Við bindum hana fyrir utan búðirnar þegar við förum inn að versla og segjum henni að bíða og þá sest hún prúð og stillt og bíður þangað til við komum aftur. Þetta gengur alltaf eins og í sögu og við erum voðalega hreykin af fósturbarninu en þegar við förum í bakaríið sjáum við kannski skýrast hvað því finnst um biðina. Þá situr hún nefnilega og starir inn um gluggann á okkur og í hvert skipti sem við lítum við mætum við augnaráði hunds sem starir stíft og fast á fólkið sitt í gegnum búðargluggann. Augnaráðið segir: Og hvers vegna er ég bundin hérna úti meðan þið farið inn? Treystið þið mér ekki?