Ástin í ýmsum hugarfylgsnum
Gurrí, samstarfskona mín, var að segja mér sögu af manni sem var næstum dottinn úr stólnum í brúðkaupi þegar hann heyrði sunginn textann: „Hættum að slást og reynum að finna einskonar ást. “ Manninum fannst brúðhjónin fullsnemma í bæði að slást og slá af kröfum sínum um að finna fullkomna ást. Ég hef oft hugsað á svipuðum nótum og þessi maður þegar ég heyri ýmsa dægurlagatexta. Tökum til dæmis þennan: „Maybe I didn't treat you quite as good as a should have. Maybe I didn't love you quite as often as a could have. Little things I should have said and done I just never took the time. You were always on my mind. Þetta hefur mér alltaf þótt til marks um rómantíska snilld karlmannsins. Það er sem sagt nóg að hann hugsi stíft til konunnar og þar með á að vera hægt að fyrirgefa honum fyrir að vanrækja alla litlu hlutina sem skipta svo miklu máli. Flestir vilja nú ögn áþreifanlegri ást en þetta. Hvað fyndist karlmönnum til að mynda um það ef konurnar þeirra segðu við þá þegar þeir bæðu um kynlíf: „Ekki núna elskan en ég skal hugsa til þín í tuttugu mínútur.“ Það ætti að vera fyllilega nógur tími fyrir hvern meðalkarlmann.