Fall er fararheill
Sennilega hefur það ekki farið fram hjá neinum að svell eru á jörðu og mikil hálka víða. Ég hef ekki farið varhluta af þessu í gönguferðum með hundinn á morgnana. Tvisvar sinnum hef ég hlunkast á rassinn en í gær steinlá ég kylliflöt á göngustígnum. Ég missti ólina úr höndunum og Freyja skokkaði nokkurn spöl hamingjusöm á svip en áttaði sig síðan á að það hékk enginn lengur í ólinni. Hún sneri sér við og horfði undrandi á mig. Svipurinn sagði: „Af hverju liggurðu þarna kona?“ Ég fór að reyna að baksa mér á fætur en þá birtist glaðlegur gulur hundur sem sveiflaði skottinu í gríð og erg og sleikti mig af innlifun í framan. Það hjálpaði lítið upp viðleitni mína til að standa upp en ég varð samt að knúsa litla fíflið aðeins. Göngutúrinn var tíðindalítill eftir fallið að öðru leyti en því að ég fann fyrir lítilsháttar rassbleytu.