Góð byrjun
Freyja hefur fengið í skóinn, eins og önnur góð börn, undanfarna daga og nú er hún farin að fatta að eitthvað stendur til á morgnana þegar ég reyni að laumast niður. Hún fylgir mér því fast eftir og sleppir ekki af mér augunum. Ég reyni að laumast í ísskápinn til að sækja nammi en hún hefur fengið lifrarpylsusneið í skóinn fram að þessu. Hún á í mesta basli við að ná sneiðinni sinni upp úr skónum og stundum horfir hún ásakandi á mig eins og hún vilji segja: „Til hvers ertu að troða þessu þarna? Getur þú ekki bara gefið mér þetta eins og eðlileg manneskja?“ Ég verð að játa að hundurinn hefur ýmislegt til síns máls.